Fjárframlög til stjórnmálaflokka

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:48:45 (4855)

[17:48]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég styð það að sjálfsögðu að þessari þáltill. sé vísað til hv. allshn. en ef svo færi að hv. allshn. færi í að afgreiða þessa tillögu, þá held ég að best færi á því að hún stytti tillögugreinina talsvert mikið. Ég held að allt í lagi sé að skipa níu manna nefnd til að undirbúa löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka eða stjórnmálasamtaka. Ég tel að Alþingi ætti að kjósa þessa nefnd en ekki að fela ríkisstjórninni að skipa hana eingöngu því að það yrði bara til þess að í henni yrðu sjálfstæðismenn, kannski einn krati eins og í 18 manna nefndinni sem endurskoðaði framhaldsskólann svo eitthvert dæmi sé nefnt, en það hefur verið vinnuregla ríkisstjórnarinnar að hafa ekkert samráð við stjórnarandstöðu þegar skipað hefur verið í nefndir.
    Ég held að það væri allt í lagi að slík þingkjörin nefnd legði mat á það hvort nauðsynlegt væri

að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokka og í nefndina yrðu að sjálfsögðu valdir fulltrúar stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og eðlilegast að það væru alþingismenn. Hitt finnst mér alveg fráleitt að ætla félagsvísindadeild Háskóla Íslands, rannsóknastofnun í siðfræði eða Lögfræðingafélagi Íslands eða fulltrúa frá fjmrn. að taka þátt í því starfi.
    Ég er satt að segja undrandi á hv. flm. að hrökkva svona við það bréf sem mér sýnist vera undirrót að þessum tillöguflutningi, þ.e. áskorun til stjórnmálaflokkanna, sem dags. er 15. sept. 1993, og prentað með sem fylgiskjal. Ég tel að Alþingi sé fullfært um að setja lög um þetta efni og það sé alls ekki ástæða til að fara að blanda þessu liði sem undir þetta bréf skrifar í lagasetningu af þessu efni.
    Ég geri engar athugasemdir við það að svona lög verði sett eða athugað hvort það eigi að setja svona lög. Ég tel hins vegar alveg fráleitt að ætla að skipa nefndina með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég tel að Alþingi sé fullfært um að ráða því máli til lykta.
    Nú kann það að vera að siðapostularnir í háskólanum telji sig sjálfsagða til að segja Alþingi hvað það á að gera. En ég tel að það sé ekki þeirra hlutverk og Alþingi, löglega kjörið, eigi að ráða þessu máli til lykta.