Fjárframlög til stjórnmálaflokka

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:58:03 (4857)


[17:58]

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér fannst ræða hv. 6. þm. Vestf., hin síðari, vera miklu betri en sú fyrri. Ég var mjög sammála mörgu því sem hún sagði. Það er alveg ljóst að fé þarf til stjórnmálastarfsemi. Ég tel heppilegast að stjórnmálaflokkarnir fái starfsfé úr ríkissjóði eða á fjárlögum. Lýðræðinu er það ákaflega nauðsynlegt að stjórnmálaflokkarnir geti starfað með sæmilegum hætti og stjórnmálastarf sé ekki einskorðað við auðuga flokka eða flokka sem eru e.t.v. á framfæri fjársterkra fyrirtækja. Aðstaða stjórnmálaflokka er náttúrlega mjög mismunandi að þessu leyti.
    Ég tel það mjög til fyrirmyndar að athuga hvernig þetta er í öðrum löndum. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar skipaði þingmenn úr öllum flokkum í nefnd til að athuga þetta mál og reyna að koma sér saman um lagasetningu í þessu efni. Ég var formaður þeirrar nefndar. Nefndin lauk ekki starfi sínu, þ.e. við náðum því ekki að koma okkur saman um formið á þessum lögum. En nefndin var leyst frá störfum jafnskjótt og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við stjórnartaumunum.
    Ég tel að stjórnmálaflokkarnir séu fullfærir um að leysa þetta mál. Það kostar auðvitað tíma og samkomulagvilja. En ég held að það sé mjög nauðsynlegt að svona lög verði sett og þessu fundinn eðlilegur farvegur. Ég er sammála því. Ég er ekkert hræddur við að ef þetta er gert með opinberum hætti og allir sitja við sama borð þá passi stjórnmálaflokkarnir ekki hver annan þannig að ekki sé mikil hætta á að um spillingu verði að ræða eða misnotkun á peningunum.
    Ég er sem sagt hlynntur, eins og ég sagði áðan, því að Alþingi vinni að þessu máli og í því efni má e.t.v. byggja á því starfi sem nefnd sú sem ég veitti forstöðu var búin að vinna. En ég tel að allshn. ætti að breyta tillögugreininni ef tillagan verður afgreidd.