Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:17:35 (4860)


[18:17]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Ég kem hér upp aðeins til að þakka hv. flm. þessa máls fyrir að koma því í umfjöllun. Mér var ekki ljóst að fram hefði komið frv. til laga um þetta mál en ég hefði talið ástæðu til að því hefði verið hreyft þá, endurflutt þing eftir þing úr því að svo er en þar sem það var ekki gert þá tel ég að þetta sé það skref sem sé rétt að taka.
    Ég get nærri því tekið undir hvert einasta orð sem hv. 1. flm. tillögunnar sagði áðan. Tvísköttun lífeyris eins og nú er er einhver mesta ósanngirni sem er finnanleg í skattalögunum. Bæði það að 4% hluti tekna launþeganna er skattlagður þegar tekna er aflað í upphafi, og síðan að lífeyririnn er skattlagður við útborgun. Ég hafði hugsað mér sjálfur að setja þetta mál fram en ég náði því ekki áður en þessi tillaga kom fram, en ég fagna henni sérlega.
    Það er auðvitað fleira sem þarf að gera breytingar á í skattalögunum, svo sem hækka frítekjumarkið og fleira. En þetta mál þarf að hafa forgang og ég vona að því verði tekið þannig. Lífeyrissparnaðurinn þarf að njóta sérkjara í ávöxtunarkerfi landsmanna.
    Virðulegur forseti. Þetta er örstutt hjá mér, ég lýsi enn yfir ánægju með þetta mál og hvet til afgreiðslu á greiðan hátt í hv. efh.- og viðskn.