Endurnýjun varðskips

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 19:17:00 (4870)

[19:17]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um endurnýjun varðskips. Meðflutningsmenn mínir á þessari þáltill. eru Matthías Bjarnason, Guðjón Guðmundsson og Árni R. Árnason.
    Tillagan hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta nú þegar fara fram athugun á endurnýjun varðskipsins Óðins sem er 34 ára gamalt skip. Verði þá athugað hvort sé hagkvæmara að smíða nýtt skip eða kaupa notað.``
    Greinargerðin er svohljóðandi:
    ,,Nauðsynlegt er talið að Landhelgisgæslan eigi fjögur stór varðskip og að þau séu í fullum rekstri allt árið. Eitt skip er ávallt í höfn vegna leyfa skipverja, viðhalds og lagfæringa. Nú er svo ástatt að þrjú skip eru úti yfir hávetrartímann, janúar, febrúar og mars, en á öðrum árstímum eru aðeins tvö skip við vörslu landhelginnar. Þá er oftar en ekki aðeins eitt skip við eftirlit á Íslandsmiðum yfir hluta sumartímans.
    Fimm togarar frá löndum Efnahagsbandalagsins munu samkvæmt EES-samningi fá heimild til veiða innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar á tilteknum svæðum sem mjög náið eftirlit þarf að hafa með. Enn fremur ber að geta þess að ástandið við miðlínu Íslands og Grænlands þarf lítið að breytast til að nauðsyn verði á mjög aukinni gæslu. Það fer m.a. eftir fiskgöngum. Sama gildir um landhelgina í átt til Jan Mayen.
    Meðalaldur íslensku varðskipanna er 26,3 ár, en aldur þeirra er eftirfarandi: vs. Óðins 34 ár, vs. Ægis 26 ár og vs. Týs 19 ár. Viðhaldskostnaður varðskipanna eykst með hverju árinu sem líður, og þótt nú þegar yrði byrjað á smíði nýs varðskips yrði það varla tilbúið fyrr en eftir þrjú ár í fyrsta lagi.
    Íslenska landhelgin er 750 þúsund ferkílómetrar. Á sama tíma og skipum og starfsmönnum Gæslunnar hefur fækkað hefur landhelgi Íslendinga margfaldast að stærð. Það þarf ekki mikil rök að hafa varðandi nauðsyn þess að Íslendingar reki öfluga landhelgisgæslu, minnkandi afli og nauðsynleg fiskvernd auk ásælni erlendra fiskiskipa segja allt hvað þetta nauðsynlega mál varðar.
    Allir sem þekkingu hafa á málefnum Landhelgisgæslunnar telja mjög brýnt að hefja þegar undirbúning að endurnýjun varðskipa. Stærð landhelginnar við Ísland er svo mikil að ekki má hætta á neitt er dregið gæti úr strangri gæslu. Þess verður að gæta að eðlileg endurnýjun fari fram á skipastól Gæslunnar og því er þessi þingsályktunartillaga borin fram. Núverandi ástand er óviðunandi.``
    Núverandi ástand á skipaflota Landhelgisgæslunnar er óviðunandi og einkum þegar litið er til aldurs elsta varðskipsins, Óðins. Eins og mönnum er kunnugt hefur danska landhelgisgæslan verið með skip á svæðum hér, bæði við Grænland og Færeyjar og skipin þeirra voru komin nokkuð til ára sinna en nú hafa þeir endurnýjað sinn varðskipaflota með mjög myndarlegum og glæsilegum hætti.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um það að nái þessi þáltill. fram að ganga muni starfsemi Landhelgisgæslunnar mjög eflast og við þurfum á eflingu hennar að halda. Bæði litið til landhelginnar, gæslu hennar, svo og til öryggisþátta hvað varðar hina dreifðu byggð og síðast en ekki síst sjómanna sem eru nú að sækja æ lengra til hinna fjarlægu miða heldur en áður hefur þekkst og í ríkari mæli.
    Það má líka ljóst vera eins og umræðan var hér áðan um atvinnuskapandi tækifæri fyrir Íslendinga þá yrði þetta vissulega lyftistöng fyrir íslenska skipasmíðaiðnaðinn ef svo færi að menn teldu það eðlilegt og rétt að endurnýja varðskipið Óðinn með þeim hætti að hér færi fram nýsmíði þess varðskips sem þessi þáltill. fjallar um.
    Ég sagði í upphafi greinargerðar að hér á árum áður hefðu varðskipin verið fjögur og jafnvel fimm, starfsmenn margfalt fleiri og þá jafnvel taldi Alþingi og þjóðin öll að ekkert ætti til þess að spara að Landhelgisgæslan væri svo í stakk búin að hún gæti sinnt þeim verkefnum sem af henni væri krafist og einkum og sér í lagi var þetta oftar en ekki viðhaft í ræðum og riti þá við vorum að færa landhelgina út, fyrst í 50 sjómílur og síðan í 200 sjómílur. Nú virðist sem álit almennings hafi dagað uppi hvað áhrærir Landhelgisgæsluna og þykir þá um leið rétt enn að skerpa á því og minna á að við erum eyþjóð, við lifum af fiskveiðum og við þurfum að gæta landhelginnar. Það má hverjum manni ljóst vera að mikil ásókn á eftir að verða í mið landsins og þegar hefur borið á því hér út af Reykjanesskaganum.
    Ég hef þessi orð ekki fleiri, virðulegur forseti, en legg þessa þáltill. hér fram til 2. umr. og hv. viðskn.