Endurnýjun varðskips

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 19:23:23 (4871)


[19:23]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir að flytja þessa þáltill. Ég tel að við höfum dregið allt of lengi að endurnýja varðskipakostinn. Ég út af fyrir sig hef ekki upplýsingar sem ég tel nógu haldbærar til að geta sagt fyrir fullt og fast hvað hér eigi að vera mörg varðskip en ég tel þó að það sé nokkuð augljóst að færri geta þau ekki verið en við höfum núna. Og að meðalaldur þessara skipa skuli vera orðinn yfir 26 ár segir okkur bara að við þurfum að taka þarna til hendinni því annars munum við auðvitað lenda í gífurlegum kostnaði við endurnýjunina þegar við þurfum kannski að endurnýja tvö skip í einu. Þess vegna held ég að það sé einmitt rétt að hefja þetta starf nú og kannski væri tíminn aldrei betur valinn heldur en núna á meðan íslenskur skipaiðnaður er í þeirri lægð sem hann er í. Og við megum búast við því að við þurfum að leggja töluvert á okkur til þess að rétta þann iðnað við og skapa atvinnu í skipasmíðum hér í landinu.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að Íslendingar geta vel smíðað þessi skip. Það er næg tækniþekking og möguleikar til þess að gera þessa hluti alveg jafn vel og gert er annars staðar. Það hafa íslenskir skipasmiðir sannað og ég tel að það sé ástæða til að hraða þessari athugun einmitt vegna þess atvinnuástands sem við höfum verið að tala um.
    Það hefur orðið mikil tæknibylting í kringum siglingar og útgerð skipa. Þannig að auðvitað verður framtíðin öðruvísi við eftirlit en hún hefur verið. En það getur þó aldrei neitt komið í staðinn fyrir örugg og góð skip og þau verðum við að hafa. Ég held að þeir sem hafa haldið því fram að færri geti skipin ekki verið en þau eru núna hafi rétt fyrir sér. Þess vegna eru röksemdirnar fyrir þessu mjög sterkar að við þurfum að leggja af stað í þessa endurnýjun.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en ég vonast til að efh.- og viðskn. afgreiði þetta mál fljótt frá sér og það komi til endanlegrar meðferðar í þinginu fyrir vorið.