Endurnýjun varðskips

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 19:29:04 (4873)


[19:29]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa talað í máli þessu og tekið undir þessa þáltill. sem við flm. teljum að sé full ástæða til að alvarlegur gaumur verði gefinn þó ekki sé litið nema til tveggja þátta.
    Í fyrsta lagi það að skip Landhelgisgæslunnar eru að verða með þeim eldri ef litið er á meðalaldur skipa, eru að verða eldri en fiskiskipastóll og kaupskipastóll Íslendinga þó það séu að vísu orðin nokkuð fá skip þar. En engu að síður í öðru lagi er það nú orðið svo að fiskiskipastóllinn er að breytast, skipin eru að stækka sem þýðir um leið að varðskipin þurfa auðvitað að taka þeim breytingum í samræmi við stækkun fiskiskipaflotans og einkum og sér í lagi þegar litið er til þeirra stóru og miklu frystitogara sem eru hér á miðum okkar þá þarf auðvitað stór og öflug varðskip til að vera þeim til aðstoðar einkum og sér í lagi ef þarf að draga þau til hafnar vegna vélarbilunar eða annars.
    Ég endurtek þakklæti mitt til þingmanna sem hér hafa talað í máli þessu. Ég þykist vita að Alþingi taki þessa þáltill. til skjótrar afgreiðslu með tilliti til stöðu Landhelgisgæslunnar, nauðsyn þess að landhelginnar sé gætt svo eitthvert vit sé í og síðast en ekki síst með tilliti til þess atvinnuskapandi tækifæris sem þessi þáltill. hefur að geyma.
    Virðulegi forseti. Við athugun á því hvert ætti að vísa þessari þáltill. mun það rétt vera að þessi þáltill. eigi heima í allshn. og því er eðlilegt að henni sé vísað þangað.