Sveitarstjórnarlög

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 13:49:41 (4880)

[13:49]
     Frsm. félmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Frv. það sem ég mæli hér fyrir er flutt af félmn. en er samið af hagstofustjóra að höfðu samráði við félmrn. og nefndina. Frv. er flutt vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um alþingiskosningar árið 1991 og skipta máli við sveitarstjórnarkosningarnar nú í vor.
    Þær breytingar sem bregðast þarf við eru tvíþættar. Annars vegar var ákvæðum um kjörskrá breytt þannig að í stað þess að miða skráningu manna á kjörskrá við lögheimili á tilteknum tíma er miðað við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár. Við þetta skapast misræmi milli kjörskrárákvæða alþingiskosningalaga og sveitarstjórnarlaga. Hins vegar var framboðsfrestur styttur úr fjórum vikum í tvær. Vegna tengsla sveitarstjórnarlaga og alþingiskosningalaga hefur síðari breytingin það í för með sér verði ekkert að gert að framboðsfrestur við sveitarstjórnarkosningar verður tvær vikur. Skráning manna á kjörskrá miðast við sama frest og er það óraunhæft.
    Í lögum um alþingiskosningar var allt fram til ársins 1991 kveðið á um að menn skyldu eiga kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu lögheimili 1. des. næst á undan þeim tíma er kjörskrá skyldi lögð fram. Sams konar ákvæði um kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum voru í sveitarstjórnarlögum fram til ársins 1986 er núgildandi ákvæði voru tekin upp. Í 4. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga segir nú að hver maður eigi kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann á lögheimili þegar framboðsfrestur rennur út í þeim sveitarfélögum þar sem sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí.
    Í athugasemdum með frv. því til sveitarstjórnarlaga sem varð að lögum nr. 8/1986 kemur fram að með þessari breytingu var að því stefnt að færa tímamörk fyrir ákvörðun um staðsetningu manna á kjörskrá sem næst kjördegi.
    Með lögum nr. 10/1991, um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, var ákvæðum um hvar menn skyldu eiga kosningarrétt breytt, bæði í þeim tilgangi að færa tímamörkin sem við er miðað sem næst kjördegi og til að einfalda vinnu við kjörskrárgerð. Þessi ákvæði eru nú í 1. mgr. 15. gr. kosningalaga. Samkvæmt þeim skal taka á kjörskrá þá sem uppfylla almenn kosningarréttarskilyrði og skráðir eru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár sjö vikum fyrir kjördag. Þessum ákvæðum var fyrst beitt í alþingiskosningunum í apríl 1991. Þá var það talið til bóta að hætta að miða búsetu manna við 1. des. og færa viðmiðunartímann nær kjördegi. Hins vegar var það talið mjög til einföldunar að hætta að tengja kosningarrétt manna við lögheimili þeirra og binda hann þess í stað við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár.
    Eftir fyrri tilhögun varð oft ágreiningur um hvar lögheimili manna skyldi í raun og veru talið

standa. Ýmis álitamál risu af þessu tilefni og leiddu til vandkvæða við kjörskrárgerð og til fjölda kjörskrárkæra og dóma. Tenging kosningarréttarins við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár veldur því að litið er fram hjá álitamálum um lögheimilisfesti. Þess í stað er skráning manna á íbúaskrá látin ráða, en með því eru bæði einstaklingarnir sjálfir og sveitarstjórnir gerðar ábyrgar fyrir því að menn standa á kjörskrá í réttu sveitarfélagi. Í alþingiskosningunum 1991 kom glöggt fram hvílíkt hagræði var að þessum ákvæðum, kjörskrárgerðin varð mun öruggari og einfaldari en áður og kjörskrárkærum og dómum fækkaði til mikilla muna. Þess má fastlega vænta að slíkur málarekstur hverfi nær alveg þegar festa hefur skapast um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Auk þess sem að framan er rakið skal á það bent að í reynd sýnist ekki unnt að kjósa til sveitarstjórna að óbreyttum ákvæðum um tímamörk fyrir kjörskrárgerð. Samkvæmt 12. gr. sveitarstjórnarlaga gilda ákvæði alþingiskosningalaga um framlagningu kjörskráa, kærur og framboðsfrest í sveitarstjórnarkosningum. Þegar sveitastjórnarlögin voru sett kváðu alþingiskosningalög á um að framboðsfrestur rynni út fjórum vikum fyrir kjördag. Með breytingu alþingiskosningalaga árið 1991 var framboðsfrestur styttur í tvær vikur. Allir kærufrestir miðast við þessi tímamörk. Ef kosið yrði til sveitarstjórna samkvæmt gildandi lögum hefði þetta því í för með sér að miða ætti kjörskrá við lögheimili manna tveimur vikum fyrir kjördag. Ætla verður að við svo skamman frest færi frágangur kjörskráa úr böndum. Ekki ynnist tími til að gera kjörskrárstofna og kjörskrár svo að viðunandi væri. Enginn tími yrði til að láta kjörskrár liggja frammi en samkvæmt alþingiskosningalögum skal leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis eigi síðar en 24 dögum fyrir kjördag. Ekki yrði unnt að koma við kjörskrárkærum nema með dómi því kærufrestur rynni út þann sama dag og skráning manna á kjörskrá miðast við.
    Í frv. þessu er lagt til að fyrrnefndum kosningarréttarákvæðum sveitarstjórnarlaga verði breytt til samræmis við ákvæði alþingiskosningalaga. Er það ótvírætt til bóta að sömu ákvæði gildi í þessum tvennum lögum þannig að sveitarstjórnir þurfi ekki að beita einni reglu við alþingiskosningar og forsetakjör og annarri við sveitarstjórnarkosningar.
    Hins vegar telur félmn. að tímamörk fyrir kjörskrá, sem ákveðin voru sjö vikur í alþingiskosningalögum, séu óþarflega rúm og óhætt sé að færa þau nær kjördegi. Er því lagt til að skráning manna á kjörskrá miðist við skráð lögheimili fimm vikum fyrir kjördag í stað sjö vikna í alþingiskosningalögum.
    Sem fyrr segir var framboðsfrestur til kosninga til Alþingis styttur úr fjórum vikum í tvær árið 1991. Tilgangurinn var sá að nægur tími gæfist til undirbúnings framboða þótt kjósa þyrfti til Alþingis með skömmum fyrirvara. Þetta á ekki við um sveitarstjórnarkosningar sem haldnar eru reglulega fjórða hvert ár. Kjördagur er jafnan þekktur og því nægur tími til undirbúnings framboða. Því þykir skynsamlegt að halda ákvæðum um framboðsfrest við sveitarstjórnarkosningar óbreyttum, þ.e. miða hann við fjórar vikur en ekki tvær eins og gildir um alþingiskosningar.
    Aðrar breytingar, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. eru ýmist leiddar af megintillögunni eða fela í sér minni háttar leiðréttingar á gildandi lögum.
    Að lokum legg ég til, virðulegur forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. en tel óþarft að vísa því til nefndar þar sem það er flutt af félmn. sem var samhljóða um þetta mál.