Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 14:19:38 (4885)


[14:19]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er nú til umræðu, frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993, er eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. nokkurs konar uppgjörsfjáraukalög, þ.e. hér er verið að fjalla um niðurstöðutölur um greiðslur úr ríkissjóði á árinu 1993 eins og þær endanlega líta út.
    Um þetta frv. má út af fyrir sig ýmislegt segja en þó kannski fyrst og fremst það að með því er auðvitað einu sinni enn staðfest hversu algjört skipbrot efnahagsstefna og ríkisfjármálastefna hæstv. ríkisstjórnar hefur hlotið. Ef við lítum aðeins á þessar tölur sem hér birtast sem niðurstöðutölur þá kemur í ljós að halli fjárlaganna hefur aukist um 54,4% frá því sem áætlað hafði verið þegar fjárlögin voru samþykkt í árslok 1992, fjárlögin fyrir árið 1993. Þá var gert ráð fyrir halla upp á 6,2 millj. kr. Hér er með þessum fjáraukalögum endanlega staðfest að hallinn verður 9,6 milljarðar eða 3,4 milljörðum meiri en fjárlögin höfðu gert ráð fyrir. Þetta getur nú vart talist góður dómur yfir efnahagsstefnunni eða ríkisfjármálastefnunni. Og þó eru ekki öll kurl komin til grafar við lestur þessara talna.
    Eins og menn rekur sjálfsagt minni til voru um mánaðamótin nóvember/desember samþykkt fjáraukalög fyrir árið 1993 þar sem fjallað var um greiðsluheimildir og áætlun um tekjur ríkissjóðs. Þá var gert ráð fyrir að hallinn kynni að aukast um 7,8 milljarða og niðurstaða þeirra fjáraukalaga var upp á 14 milljarða rúma sem átti að vera niðurstaða sl. árs.
    Nú geta menn auðvitað hælt sér af því að ástandið hafi þó ekki orðið svo slæmt, niðurstaðan sé 9,6 milljarðar en ekki 14 milljarðar eins og hér hefur áður komið fram. En ef við lítum á það sem fram kemur í greinargerð frv., og reyndar ítarlega einnig í máli hæstv. ráðherra, þá er gert ráð fyrir því að yfirfæra til ársins 1994 verulegar upphæðir. Og ef við leggjum þær saman og bætum þeim við þessa 9,6 milljarða sem fjáraukalög sem hér eru nú til umræðu gera ráð fyrir, þá sýnist mér að það séu tæpir 2 milljarðar kr. Hugsað er að yfirfæra heimildir upp á 2 milljarða 151 millj. kr. Frá því dregst að vísu skerðing á nokkrum stofnunum sem hafa farið umfram og ekki er gert ráð fyrir að verði bætt upp á 227 millj. kr. þannig að nettótalan er þá 1.924 millj. kr. sem kemur í viðbót við hina 9,6 milljarða, þannig að raunveruleg niðurstaða gæti þá orðið 11 milljarðar 567 millj. kr. ef allt er talið til. Þá hefur halli fjárlaganna hækkað úr 6,2 milljörðum í 11,5 milljarða eða um 5,3 milljarða eða 85,2% og það er kannski sú tala sem raunhæfust er og raunverulegust af þeim sem við erum að fjalla hér um, hæstv. fjmrh. Talan 9,6 milljarðar er aðeins greiðslustaðan um áramót, loforð og vilyrði hæstv. ríkisstjórnar um yfirfærslur. Út af fyrir sig tel ég að það sé góð vinnuregla að heimila stofnunum að flytja nokkuð af þeim fjármunum sem þeim eru áætlaðir til reksturs og stofnkostnaðar eða viðhalds yfir áramótin þannig að stjórnendur stofnana séu ekki bundnir við það nákvæmlega að hafa eytt öllum sínum fjármunum á áramótum eða eigi það þá ekki nokkuð tryggt að geta fengið eitthvað af þeim flutt yfir áramót. Ég tel að það sé góð stefna út af fyrir sig en það sýnir að talan sem við erum hér að höndla með segir í raun ekki alla söguna eins og ég hef reynt að draga fram og hinn raunverulegi halli er kannski um það bil 11,5 milljarður kr.
    Þetta er nú sagan um það hvernig ríkisfjármálastjórnin hefur gengið. Og ef við lítum aðeins nánar á þessa tölu þá er svo merkilegt með það að ýmsar stofnanir, kannski nánast flestar stofnanir hins opinbera, ráðuneytin og undirstofnanir þeirra, þar sem menn eru að glíma við að standa við fjárlög, hafa farið nokkuð eftir þeim ramma sem þeim var áætlaður og gert ráð fyrir. Þannig að það hefur því betur orðið breyting á hvað varðar fjármálastjórn hjá opinberum stofnunum. Forstöðumenn og forsvarsmenn ríkisstofnana reyna mjög að halda sig við þann fjárlagaramma sem þeim er ætlaður í fjárlögum hverju sinni.
    Breytingarnar sem hafa hins vegar orðið hér upp á rúma 5 milljarða kr. eða 85% hækkun á hallanum sem ráðgerður var í fjárlögum fyrir árið 1993 má hins vegar að mestu leyti rekja til ýmissa afleiðinga af efnahagsstefnunni og stefnu ríkisstjórnarinnar hæstv. Þar vil ég t.d. nefna ástandið í atvinnumálunum. Enda segir hér í skýrslu sem hæstv. fjmrh. vitnaði til um ríkisfjármálin fyrir árið 1993, sem lögð

var fram hér á Alþingi hinn 23. feb. sl., að þessar breytingar megi að stærstum hluta rekja til skuldbindinga stjórnvalda m.a. í tengslum við gerð kjarasamninga, vegna meira atvinnuleysis en forsendur fjárlaga fólu í sér, vegna þess að tekjur hafa ekki gengið eftir eins og áætlað var og allt stafar það af efnahagsstefnunni. Það eru sem sagt þessar stóru tölur sem breytast sem er vegna þess hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur farið með stjórn í landinu.
    Ég sagði í upphafi að það mætti ýmislegt af þessu læra og ýmislegt ræða um þessar niðurstöðutölur eins og þær liggja hér fyrir. Það eru einmitt þessir þættir, hvernig staðið er að stjórnuninni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, sem mestu skiptir. Ríkisstjórnin hæstv. hefur meðal annars hælt sér af því að tekist hafi að ná niður vöxtum í lok síðasta árs. Það er vissulega rétt að vextir lækkuðu verulega og hafa nú nálgast nokkuð það sem gerist í löndunum hér í kringum okkur þó enn séu samkvæmt upplýsingum í þessari sömu skýrslu, sem ég vitnaði til áðan, vextir hér taldir vera 1,5--3% hærri en er í nágrannalöndunum. Lækkunin hefur kannski fyrst og fremst verið að ná til baka þeim vaxtahækkunum sem hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir í upphafi síns starfsferils. Um það höfum við margsinnis rætt hér í hv. Alþingi og þarf ekki út af fyrir sig að eyða mörgum orðum um það nú í viðbót við það sem áður hefur komið fram. Þar var um að ræða handaflsaðgerðir og betra er seint en aldrei, ríkisstjórnin sá að sér í þessu máli og knúði vextina niður aftur í lok seinasta árs. En óbætt stendur auðvitað öll sú gífurlega tilfærsla á fjármunum sem af þessu vaxtaokri leiddi frá veikum atvinnuvegum, frá atvinnufyrirtækjum sem áttu vissulega í erfiðleikum, voru skuldsett mjög og þoldu ekki þessa háu vexti, þessa hávaxtastefnu frá fjölskyldum og heimilum og frá einstaklingum sem skuldugir voru til hinna sem þetta fjármagn eiga. Þar er auðvitað um að ræða marga tugi milljarða sem hafa verið fluttir til á tveggja og hálfs árs valdaferli þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Þetta eru stóru tölurnar, virðulegur forseti, og stóru þættirnir sem standa upp úr þegar reynt er að lesa út úr þeim tölum sem þessi fjáraukalög og hin raunverulega niðurstaða ríkissjóðs ber með sér ef litið er yfir sviðið allt.
    Ástandið sem skapast hefur í atvinnulífinu hefur síðan leitt til gjaldþrota, til þess að fyrirtæki hafa lagt upp laupana, til þess að atvinnuleysi hefur stórvaxið, til þess að tekjur ríkissjóðs hafa dregist saman og ríkissjóður hefur auðvitað líka tapað miklum fjármunum á gjaldþrotum og erfiðleikum í atvinnulífinu. Þar eru breytingarnar, þar er misvægið á því sem fjárlög annars vegar gerðu ráð fyrir og því sem hin raunverulega niðurstöðutala segir okkur þegar upp er staðið.
    Það má svo auðvitað velta aðeins vöngum yfir því hvernig stendur á því að Alþingi samþykkir í desembermánuði fjáraukalög með 14 milljarða kr. halla þegar ekki eru nema 3--5 vikur til áramóta og ætti að vera nokkuð ljóst að hverju stefndi og hefði þess vegna sú fjáraukalagagerð getað verið nokkuð nákvæmari en raun ber vitni. Hér er um að ræða endurtekna sögu frá fyrra ári. Þá voru í árslok 1992 samþykkt fjáraukalög og síðan aftur fyrri hluta árs 1993 ný fjáraukalög sem voru hin endanlegu fyrir árið 1992. Þá stóðum við frammi fyrir alveg sömu sögunni eins og nú að fjáraukalögin, sem samþykkt voru í desember 1992, eins og þessi sem samþykkt voru í desember 1993, voru afar óraunhæf og langt frá hinni raunverulegu endanlegu niðurstöðu.
    Það er umhugsunarefni bæði fyrir okkur hv. þm. sem sæti eigum í fjárln. og fyrir hæstv. fjmrh. og fjmrn. eða starfsmenn þess ágæta ráðuneytis að reyna að færa sig nær þeim niðurstöðutölum sem mega nú vera nokkuð ljósar þegar svo nærri er komið áramótum.
    Vissulega er það svo að þegar frv. er lagt fram, sem er á haustin, kannski í þingbyrjun í októbermánuði, þá er e.t.v. ekki gott að sjá nákvæmlega hvert stefnir en þegar þingið fjallar um frv. eða málið í kannski 2--3 mánuði þá ætti að vera hægt að færa það nær raunveruleikanum en raun ber vitni.
    Mig langar síðan aðeins að fara örfáum orðum um það hvernig tekist hefur að nýta þær fjárveitingar sem ætlaðar hafa verið til viðhalds og stofnkostnaðarframkvæmda á sl. ári vegna þess að eitt af því sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í tengslum við kjarasamningana á síðasta ári var einmitt að auka fjárveitingar til opinberra framkvæmda til að reyna að bæta atvinnuástandið. Nú er það ljóst að af þeim rúma milljarði sem þá átti að úthluta til þessara verkefna var ekki eytt nema um 700 millj. kr. og 326 millj. standa enn út af. Við ræddum það bæði við gerð fjárlaganna sjálfra og við afgreiðslu fjáraukalaganna á seinasta ári að það hefði mátt standa betur að úthlutun þessara fjármuna og sjá til þess að þeir nýttust betur til þeirra verkefna sem þeim var ætlað.
    Í lista sem lagður hefur verið fyrir fjárln. um óhafnar fjárveitingar af þessum eina milljarði kemur fram að þar er um að ræða í mörgum tilfellum stórar upphæðir sem ekki hafa verið notaðar en hefðu sannarlega mátt nýtast betur í því atvinnuástandi sem bæði var og er og ég trúi því illa að ef farið hefði verið að þeim hugmyndum og þeim óskum sem minni hluti fjárln. setti ítrekað fram í fjárln. og hér í þingsölum að þessi fjárveitingalisti yrði tekinn til endurskoðunar og reynt að finna verkefni sem unnt væri að vinna án tafar til þess að bæta atvinnuástandið, það hefði mátt gera og nýta fjármunina þá strax betur en raun ber vitni.
    Það er e.t.v. ekki ástæða til þess að vera að nefna eða telja upp þessar tölur en þó má nefna nokkrar umtalsverðar upphæðir eins og t.d. fjárveitingu til Framhaldsskólans í Grafarvogi sem áætlað var að verja til rúmum 40 millj. en þar eru enn ónotaðar 36 millj. og þær 4 sem greiddar voru á sl. ári hafa trúlega farið í einhvern kostnað eða hönnun eða undirbúningsvinnu. Auðvitað er ljóst að framkvæmdir lágu þá ekki þegar ljóst fyrir og því ólíklegt að hægt væri að nýta alla þá fjármuni til verksins. Sömu sögu er að segja um ýmsar aðrar framkvæmdir. Ég nefni t.d. Hæstaréttarhús sem áætlað var til af þessum margumrædda

milljarði 25 millj. kr. og eru enn þá ónýttar og samkvæmt þeim væringum sem eru í kringum þá byggingu og er út af fyrir sig ekki til umræðu hér, þá má hafa uppi efasemdir um það hvenær þessar fjárveitingar nýtast.
    Enn má nefna fjárveitingar til fjmrn. sem ætlaðar voru til stjórnarráðshúsnæðis upp á 35 millj. kr. eru enn þá ónýttar svo að ég taki nú aðeins nokkra stærstu liðina af þessum 326 millj. Við erum t.d. nokkrir þingmenn úr Norðurl. e. sem vitum að þar eru ýmsar framkvæmdir sem hefði mátt ráðast í og tillögur voru um að ráðast í strax á seinasta sumri, viðhaldsverkefni við skólamannvirki og aðrar opinberar stofnanir og hefðu þá þessir fjármunir sannanlega nýst vel á því svæði þar sem atvinnuástand er kannski einna verst af öllu á landinu um þessar mundir. Þetta höfum við gagnrýnt áður og í viðbót við þetta að þessar fjárveitingar hafa ekki nýst og viðbót við þennan lista, sem ég hef verið að vitna til, þá er auðvitað eins og fram kom í máli hæstv. fjmrh. um það bil 700 millj. kr. aðrar enn þá ónotaðar í ýmsar stofnkostnaðarframkvæmdir. Nú kann að vera að á því séu ýmsar skýringar sem eigi sér eðlileg rök og auðvitað er það svo að þegar úthlutað er fjárveitingum á fjárlögum til ýmissa verkefna, þá er ekki alltaf sýnilegt að hægt sé að nýta þær allar og lofsverð fyrirheit hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. að ætla að standa við það að þessum fjárveitingum verði eftir sem áður varið til þegar ákveðinna og umsaminna verkefna. En fyrst og fremst er gagnrýnisvert að þær fjárveitingar sem ætlaðar voru til að auka atvinnu og bæta atvinnuástandið skyldu ekki vera betur nýttar á seinasta ári.
    Í skýrslunni frá 23. febr. um ríkisfjármál fyrir árið 1993, sem ég vitnaði til áðan, er m.a. getið um það að rekstur sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu hafi frá árinu 1991 lækkað um rúmlega 400 millj. kr. að raungildi eða 4,1%. Ég hef beðið um það í fjárln. að fá upplýsingar um það hvaða fjárveitingar það eru sem hafa lækkað og hvaða sjúkrahús það séu sem þarna hafa fyrst og fremst verið að taka til í sínum rekstri og hverjir hafa mest lagt á sig í því efni. Við höfum oft heyrt um það rætt að með hagræðingu og breytingu á rekstri sjúkrahúsanna, m.a. með tilfærslu á verkefnum frá Landakoti til Borgarspítala, hafi náðst veruleg og umtalsverð hagræðing og sparnaður í ríkisútgjöldum sem ég leyfi mér að hafa uppi efasemdir um. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í umræðu um það hér eða nú en ég vil beina því til hæstv. fjmrh. að hann láti nú athuga það nánar hvernig að því hefur verið staðið og hvaða stofnanir það eru sem sýna raunverulegan árangur í rekstraraðhaldi ríkisstofnana.
    Mér býður í grun að meginhlutinn af þessari upphæð hafi sparast á Ríkisspítölunum þar sem stjórnendur og starfsfólk hafa lagt verulega hart að sér að standa við fjárlögin eða halda sig innan fjárlagarammans eins og þeim hefur verið gert, en allt það brölt, allar þær breytingar sem gerðar voru á rekstri hinna sjúkrahúsanna sem ég nefndi áðan hafa sparað minna eða skilað minnu en efni stóðu til og margsinnis hefur verið rætt um eða ályktað um.
    Virðulegur forseti. Tími minn við þessa 1. umr. er nú senn liðinn og ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frv. frekar. Þetta kemur til meðferðar í fjárln. þar sem ég á sæti og mun auðvitað fjalla um málið þar nánar og ég get þá út af fyrir sig fengið allar þær upplýsingar sem við þurfum frekar á að halda. En niðurstaða mín af þessu frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu er fyrst og fremst sú að það er enn þá einu sinni rækileg staðfesting á því hve illa hefur tiltekist í efnahagsstjórn og stjórn ríkisfjármála hjá núv. hæstv. ríkisstjórn.
    Aðeins að lokum í þá einu mínútu sem ég sé að ég á hér enn eftir, þá langar mig að nefna það og undirstrika að hér er dregið fram að þær 300 millj. kr. sem ríkisstjórnin hefur þó stært sig af að hafa sett til rannsókna- og þróunarverkefna í fjárlögum á seinasta ári eru endanlega dregnar til baka. Við héldum því fram við afgreiðslu fjárlaganna fyrir þetta nýbyrjaða ár í umræðunum í desembermánuði að svo mundi fara að fjárveitingar til þróunar- og rannsóknaverkefna yrðu skornar niður. Þau voru út af fyrir sig skilyrt sölu ríkisfyrirtækja upp á 1.500 millj. kr. sem ekkert stendur eftir af. Ég held að eignasalan hafi numið 50 millj. kr. í staðinn fyrir 1.500 millj. samkvæmt lista frá fjmrn. og þá þýðir það það að 300 millj. sem átti að verða til rannsókna- og þróunarverkefnanna eru nú með þessum fjáraukalögum sem hér liggja fyrir endanlega skornar niður og það verður þá líka að segjast að það stendur lítið eftir af þeim stóru og merku fyrirheitum sem ríkisstjórnin hafði þó uppi við fjárlagaafgreiðslu fyrir sl. ár um það að þessa starfsemi skyldi sérstaklega styrkja.