Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 14:52:20 (4887)


[14:52]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér um ræðir, fjáraukalagafrv., og er til 1. umr. er afstemningarfrv. en ég vildi eigi að síður áður en frv. fer til fjárln., þar sem ég hef tækifæri til að fá nánari upplýsingar um einstaka þætti þess, koma inn á örfá atriði varðandi málið.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. ræddi um halla fjárlaga sem hefur aukist verulega frá áætlun. Það hefur margsinnis komið fram, bæði í umræðum um fjárlög og fjáraukalög að stór hluti af þessum halla á rætur að rekja til þeirrar niðursveiflu sem hefur verið í efnahagslífinu. Hann á rætur að rekja til minnkandi tekna ríkissjóðs og aukinna útgjalda, m.a. vegna vaxandi atvinnuleysis. Það er því að vonum að það sé rætt þegar fjárlög og fjáraukalög eru til umræðu hvernig ríkisvaldið geti haft áhrif á þessa hagsveiflu, hvort það sé hægt að hafa áhrif á hana bæði til þess að auka atvinnu og auka tekjur ríkissjóðs og veltu í þjóðfélaginu. Það hefur verið baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í landinu að auka opinberar framkvæmdir m.a. í þessu skyni. Og þetta baráttumál var þungamiðjan í kjarasamningum bæði í maí sl. og við framlengingu kjarasamninga í nóvember. Mig undrar það satt að segja nokkuð að heyra hæstv. fjmrh. halda því fram hér áðan þegar hann talaði fyrir þessu máli að við þessa samninga hefði verið staðið. Það stendur einfaldlega deila um það milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar hvort það hafi verið staðið við þetta ákvæði kjarasamninga eða ekki.
    Það hefur farið fram mikil leikfimi með þennan 1 milljarð, sem er vissulega mikið fé, hvernig honum hefur verið varið á síðasta ári og hvað hafi verið nýtt. Það kom fram að rúmlega 500 millj. voru gamlar heimildir frá árinu 1992. Afgangurinn voru nýjar heimildir, 700 millj. er upplýst hér, ég rúnna þetta af í hundruð milljóna, voru notaðar á síðasta ári þannig að eftir stendur að 100 millj. af nýjum heimildum voru notaðar til framkvæmda á árinu 1993. En kannski skiptir þetta ekki öllu máli því að í kjarasamningum var því lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að viðhald og stofnkostnaður á árinu 1993 ætti á verðlagi árins að verða 17 milljarðar kr. og 16,4 milljarðar á verðlagi ársins 1994. Um það stendur deilan að forustumenn Alþýðusambands Íslands halda því fram að það standi upp á ríkisvaldið að framkvæma fyrir 1,7 milljarða kr. á þessu ári áður en samningstímabilinu lýkur til að standa við þessa samningsgerð.
    Það er satt að segja undarlegt hvað hæstv. ríkisstjórn hefur verið seinheppin í þessum málum eins og þetta mál er brýnt vegna afkomu ríkissjóðs, vegna atvinnustigsins í landinu því að atvinnuleysið er eitt hið versta og ég fullyrði að það er langalvarlegasta þjóðfélagsvandamálið um þessar mundir. Og þegar á annað borð er búið að semja um aukningu opinberra framkvæmda sem þar að auki koma ríkissjóði sjálfum til góða í minnkandi útgjöldum vegna atvinnuleysis og vegna aukinnar veltu sem því fylgir, þá skuli ekki takast betur til en þetta í vali á verkefnum að þessi verkefni skuli endalaust færð á milli ára. Ég undrast þetta satt að segja nokkuð og er enn meira undrandi á þeirri yfirlýsingu fjmrh. að við samningana hafi verið staðið í ljósi þeirrar deilu sem stendur við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar um þessi mál.
    Ég þarf reyndar ekki að hafa ýkjamörg orð um þetta fjáraukalagafrv. við 1. umr. Það hefur verið farið nokkuð ítarlega í gegnum það af hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Vestf. Ég vil eigi að síður undirstrika sérstaklega þetta atriði varðandi opinberu framkvæmdirnar og vil að það komi fram við þessa umræðu. Hér þarf að hafa hraðar hendur að bæta úr og endurskoða þau verkefni sem fram undan eru og hvaða verkefnum er hægt að koma í gang nú þegar til þess að bæta úr atvinnuástandinu sem er hörmulegt um þessar mundir. Þar að auki vil ég benda á það skipbrot einkavæðingarinnar og eflingu rannsókna í þjóðfélaginu sem þetta frv. sýnir. Það hafa aðeins selst ríkisfyrirtæki fyrir 148 millj. á síðasta ári þannig að öll þau fögru fyrirheit um eflingu rannsókna í þjóðfélaginu fóru þar með í vaskinn vegna þess að þau voru skilyrt því að selja ríkisfyrirtæki til þess að setja fallega grímu á einkavæðingaráformin til að selja þjóðinni þau áform. Það er svo aftur sérmál að eftir áramótin var gerð atrenna í þessu og eitt ríkisfyrirtæki selt ákveðnum aðilum á sanngjörnu verði en það kom í ljós og verður síðar rætt --- ég ætla ekki að gera það að umræðuefni í þessari umræðu --- um sölu Síldarverksmiðja ríkisins sem kom ekki til reiknings á árinu 1993 heldur árinu 1994. En þessi atriði vildi ég undirstrika við 1. umr. en hef að öðru leyti tækifæri til þess að vinna að málinu í fjárln. þegar það kemur þangað.