Þingsköp Alþingis

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:30:11 (4896)

[15:29]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, á þskj. 365.
    Frvgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Aftan við 2. mgr. 36. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lagafrumvörp, sem varða breytingar á skattalöggjöf, skal leggja fram eigi síðar en sex mánuðum áður en þau eiga að taka gildi.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í greinargerð með frv. er það rakið að um langt árabil hefur sú óheppilega venja ríkt á Alþingi að breytingar á lögum um skattheimtu ríkisins og sveitarfélaga eru unnar í tímaþröng rétt fyrir gildistöku laganna. Oftast er þetta bein afleiðing þess að frumvörp eru ekki lögð fram fyrr en á síðustu stundu.
    Það má öllum vera ljóst að hér er um ófullnægjandi vinnubrögð að ræða. Kemur þar bæði til að Alþingi gefst ekki tóm til þess að vinna að málunum sem skyldi og oft er hér um að ræða flókna löggjöf sem gerir miklar kröfur til þeirra sem eiga að vinna eftir henni.
    Hér er lagt til að frumvörp til laga um skattalagabreytingar verði lögð fram eigi síðar en sex mánuðum fyrir gildistöku þeirra. Þetta þýðir í raun að frumvarp að skattalagabreytingu, sem taka á gildi um áramót, verður að fá þinglega meðferð á næstliðnu vorþingi og frumvörp, sem verða að lögum á haustþingi, taka í fyrsta lagi gildi 1. apríl á næsta ári.
    Með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, yrði höfuðverkefni Alþingis á haustþingi, hvað varðar fjármál ríkisins, að vinna að fjárlögum samkvæmt fyrirliggjandi tekjuramma.
    Frv. þetta var lagt fram í desember þegar afgreiðsla skattalagafrumvarpa ríkisstjórnarinnar var í hvað mestri óvissu. Það er reyndar þekkt að um árabil hefur verið mikill seinagangur í framlagningu skattafrumvarpa í tengslum við fjárlagagerð. Ríkisstjórnir hafa verið að stoppa í fjárlagagötin fram á síðustu stundu. Afleiðingin af þessu er sú að skattastefnan er ómarkviss. Hún ræðst fyrst og fremst af því hvar fjmrh. finnur matarholur í hvert skipti. Þar ætla ég að nefna sem dæmi bifreiðaskatta en það er dæmi um skattlagningu sem er komin út yfir allt velsæmi og ræðst meira af tilviljun en markaðri stefnu. Þar vil ég nefna kílóagjald sérstaklega sem lagt var á bíla, fyrst 1987 en er nú orðið gildur eignarskattsstofn sem er lagður á ekki eftir verðmæti eignarinnar heldur þyngd. Með sömu vinnubrögðum bíður maður eftir því að hér verði lagður á nefskattur á einstaklinga landsins, ekki eftir efnum og aðstæðum eða jafnt heldur eftir þyngd manna. Þetta er svona álíka gáfuleg ráðstöfun.
    Síðan má nefna þá þróun í bensíngjaldi sem hefur orðið langt um fram það sem rennur til vegagerðar án þess að þar liggi nokkur mörkuð stefna að baki.
    Síðast en ekki síst vil ég nefna þær handahófskenndu breytingar sem voru gerðar í kringum þær breytingar að virðisaukaskatturinn var settur í tvö þrep um síðustu áramót. Svo ég nefni bara dæmi sem ég þekki af því hvernig þessi vinnubrögð komu niður, þá hringdu í mig tveir kunningjar mínir að morgni gamlársdags. Þeir eru framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri í matvælafyrirtæki innan lands. Þeir höfðu heyrt það í fréttum að í tengslum við þessar breytingar ætti að leggja vörugjald á þá vöru sem þeir framleiddu. Þetta var á síðasta degi ársins og eftir því sem þeir höfðu frétt, þá áttu þeir að fara að vinna eftir þessum nýju lögum á fyrsta degi næsta árs en höfðu ekki fengið nokkurn skapaðan hlut í hendurnar um það hvernig þeir ættu að vinna að þessu, hvað þetta gjald hefur verið hátt, hvað þá að búið væri að setja um þetta reglugerð.
    Nokkrum dögum seinna kom ég við í kaupfélagi úti á landi sem rekur fjölþætta þjónustu, selur m.a. ís úr vél eins og víða er gert. Þar voru menn búnir að fá reyndar reglugerðina í hendurnar en þar var þeim upp á lagt að leggja 14% virðisaukaskatt á ísinn en ef þeir seldu sósu með skyldi hún bera 24,5% virðisaukaskatt. Þarna stóðu menn algerlega ráðþrota og höfðu engar leiðbeiningar um framkvæmd. Þetta er óhjákvæmileg afleiðing þess þegar skattalög eru unnin í eins miklum flýti og hér hefur átt sér stað.
    Nú ætla ég ekki að halda því fram að þetta sé neitt einsdæmi hjá þessari ríkisstjórn. En ég man þó að á haustþingi 1989, þegar var verið að undirbúa að virðisaukaskatturinn tæki gildi, þá vorum við í stjórnarliðinu að fá inn á þingflokksfundi hjá okkur í byrjun desember, og fannst það að vísu nokkuð seint, þær reglugerðir sem átti að vinna eftir þegar breytingin tæki gildi en því var ekki að heilsa að þessu sinni.
    Það er mín skoðun að hér verði að taka upp markvissari vinnubrögð. Það þurfi að vera meiri tími til að kanna áhrif skattkerfisbreytinga og hvernig þær falli inn í þá skattastefnu sem menn telja sig vera að framfylgja á hverjum tíma. Ég verð að segja í þessu sambandi að mér finnst flestar breytingar og aðgerðir þessarar ríkisstjórnar hafa gengið í þá átt að gera skattkerfið flóknara og óskilvirkara. Þessi ríkisstjórn tók við til þess að gera einföldu skattakerfi með einni prósentu bæði í virðisaukaskattinum og einnig í tekjuskattinum. Það er að vísu sagt að menn megi ekki láta skattastefnu ráðast af tæknilegum atriðum eins og þeim hvernig sé hægt að framfylgja henni. En ég hef reyndar þá trú að það skipti svolitlu máli, að það skipti máli fyrir trúverðugleika skattastefnu að hún sé sett upp svo skýr og skilvirk að með góðu móti sé hægt að framkvæma hana og skattþegnarnir hafi þá trú að verið sé að framfylgja henni.
    Ég vil einnig tengja þetta umræðu um starfshætti Alþingis og menn hafa alla vega sagt að þeir hafi verið að vinna að því að styrkja þingið á kostnað framkvæmdarvaldsins. En ýmislegt finnst mér ganga í þveröfuga átt í vinnubrögðunum. Ef þessi grein sem ég legg til væri lögfest, þá held ég að það væri örugglega í þá átt að styrkja þingið, þó svo það gangi út yfir það mikla vald sem framkvæmdarvaldið fer með í dag.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til allshn. Það varð sú niðurstaða sem ég komst að. Það hefur að vísu verið umdeilt á þessum degi að vísa málum til allshn. en það var reyndar mín skoðun að breytingar á þingsköpunum ættu heima hjá allshn. frekar en efh.- og viðskn. en ég vildi biðja virðulegan forseta að skoða það með mér áður en þetta mál kemur til atkvæðagreiðslu.