Þingsköp Alþingis

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:39:59 (4898)

[15:39]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það í upphafi máls míns að ég hefði talið eðlilegt að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Þetta mál varðar hann og hans ráðuneyti. Að mínum dómi er hér um mjög þarft mál að ræða þótt auðvitað mætti velta því fyrir sér hvort hér sé um eðlilegan tímafrest að ræða. Í frv. er lagt til að lagafrumvörp sem varða breytingar á skattalöggjöf skuli lögð fram eigi síðar en sex mánuðum áður en þau skuli taka gildi. Þetta þýðir í raun að ef við miðum við það að breytingar á skattalögum taki gildi um áramót, þá þarf að vera lokið við að afgreiða þau á þingi að vori til.
    Það sem hér liggur að baki eru auðvitað þau makalausu vinnubrögð sem við höfum horft upp á ár eftir ár þegar verið er að koma með stórar og miklar breytingar á skattalögum á allra síðustu vikum þings fyrir jól og enginn tími gefst til að vinna málin almennilega, hvað þá að þeir sem eiga að fara eftir lögunum, hvort sem það er ráðuneytið sem á að útfæra þau í reglugerðum eða skattayfirvöld eða almenningur eða þeir sem reka fyrirtæki. Það er auðvitað ekki hægt að haga málum með þessum hætti. Ég held að þessi vinnubrögð séu arfur frá verðbólguárunum þegar menn sáu aldrei nema rétt fram á næstu mánuði og voru alltaf að reyna að bjarga hlutunum á síðustu stundu. En þetta þarf ekki að vera svona. Það er ekki nokkur hemja að það sé farið með jafnalvarleg og mikilvæg mál og skattalög með þessum hætti.

    Fyrsti flm. frv. rakti hér nokkur dæmi sem sneru að breytingum á virðisaukaskattslögunum fyrir jólin, en mér eru ýmis mál minnisstæð frá fyrri árum á þessu kjörtímabili þar sem menn voru nánast daglega að koma með nýjar útfærslur á skattalagabreytingum eftir því hvernig við samdist við aðila, oft á dag jafnvel, úti í bæ. Það leiðir hugann að því hvernig það hefur þróast hér á undanförnum árum að sífellt er verið að semja við aðila vinnumarkaðarins um skattalagabreytingar og mér þykir hafa verið gengið nokkuð langt í þeim efnum. Það er að vísu hægt að semja við ríkisvaldið um að létta af álögum en þegar kjarabætur felast í því einu að senda reikninginn til ríkisvaldsins þá er langt gengið.
    Þetta frv. snýr að mínum dómi ekki síst að þinginu sjálfu og þeim vinnubrögðum sem hér tíðkast og þeim verði hagað þannig að mál séu almennilega unnin og það gefist góður tími til að skoða þau og skattalagabreytingar séu samþykktar með góðum fyrirvara þannig að menn viti að hverju þeir ganga. Eins og ég nefndi hér áðan, þá gengur það ekki, hvort sem fyrirtæki eða einstaklingar eiga í hlut, að vita ekki nema kannski með hálfsmánaðarfyrirvara hvaða breytingar eigi sér stað á skattalögum fyrir næsta ár.
    Það sem ég hef hér sagt þýðir það að ég tek undir efni frv. en án þess að hafa hugsað það nákvæmlega, þá finnt mér ekki eðlilegt að vísa málinu til allshn. og er ég þá ekki að hugsa til þeirrar deilu sem hér var í dag. Við erum að tala hér um breytingar á þingsköpum Alþingis og við erum að tala um mál sem heyra undir efh.- og viðskn. og það er fyrst og fremst sú nefnd sem hefur reynslu af því að vinna með skattamál sem raun hefur borið vitni á undanförnum árum. Ég held að efh.- og viðskn. sé langsamlega best til þess fallin að leggja dóm á réttmæti þessarar tillögu þannig að ég skora á hæstv. forseta að íhuga það alvarlega að senda málið til efh.- og viðskn.