Þingsköp Alþingis

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 16:02:22 (4903)


[16:02]
     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi röksemdafærslu hæstv. ráðherra varðandi þær breytingar sem gerðar voru á skattalögum rétt fyrir jólin þá vil ég minna hæstv. ráðherra á það að fulltrúar Framsfl. og Kvennalistans í efh.- og viðskn. sýndu fram á það með tillöguflutningi að þessum verðlagsmarkmiðum var hægt að ná og betur ef eitthvað var eftir mun einfaldari leið en þeirri sem ríkisstjórnin kaus að fara.
    Varðandi hins vegar vinnubrögðin þá er kannski einmitt aðdragandi þessara breytinga skólabókardæmi um það hvernig ekki á að vinna. Auðvitað á stefnumörkun í þessum málum að fara fram í Alþingi og hjá ríkisstjórn en ekki hjá aðilum úti í bæ, með fullri virðingu fyrir þeim aðilum og alveg sama hversu mikilvægir þeir eru í okkar þjóðlífi.
    Varðandi sex eða sjö mánaða fyrirvarann sem hæstv. ráðherra nefndi þá get ég bara rifjað upp fyrir honum dæmi sem ég nefndi í minni fyrri ræðu sem ég vissi persónulega af þar sem aðilar í framleiðslugrein, sem tengdist þessum breytingum og þurfti að leggja þar á vörugjald til þess að ná einhverjum ballans í verðlagsáhrifum, höfðu ekki fengið stafkrók um það að morgni gamlársdags eftir hvaða reglum þeir ættu að vinna þegar þeir kæmu til vinnu á fyrsta degi á nýju ári og náðu ekki einu sinni sambandi við nokkurn aðila í ráðuneytinu til þess að fá um það upplýsingar. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eru algjörlega óviðunandi og mega ekki eiga sér stað.