Þingsköp Alþingis

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 16:04:27 (4904)


[16:04]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þekki ekki þetta dæmi um vörugjaldið. Það má vera að það sé satt en það eru þá mistök vegna þess að ráðuneytið á auðvitað að senda frá sér reglugerð í tíma.
    En hv. þm. minntist á skólabókardæmi --- það er í annað skipti sem hann segir skólabókardæmi í sínum ræðum --- um það að valdið sé tekið af Alþingi og fært út í bæ til aðila sem ekki séu kjörnir til þess að fara með löggjafarvaldið. Ég vil taka það fram að sem betur fer er ríkisstjórnin ekki eini aðilinn í landinu sem fer með völd. Það eru aðrir sem hafa völd. Þar á meðal verkalýðssamtökin, vinnuveitendur og fjöldamargir aðrir sem taka það stórar efnahagslegar ákvarðanir að þær geta haft úrslitaáhrif á efnahagslíf þjóðarinnar. Það kann að vera eðlilegt fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma að taka mark á þessum samtökum. Því ræður ríkisstjórnin, því ræður auðvitað hv. Alþingi og meiri hluti þess.

    Ég held að það sé hyggilegt þegar við erum að sækjast eftir markmiðum á erfiðum tímum, markmiðum sem hafa þýðingu fyrir efnahagslífið og við teljum að geti komið okkur til góða, við viljum vinnufrið, við viljum lága verðbólgu og stöðugleika í efnahagsmálunum, þá kann það að vera klókt og rétt að eiga samstarf við aðila sem kallaðir eru aðilar úti í bæ. Það verður hins vegar aldrei gert öðruvísi en þannig að meiri hluti Alþingis vilji eiga slíkt samstarf. Við lifum sem betur fer ekki í svo einföldum heimi að alþingismenn ráði einir öllu um allt sem gerist í landinu. Ég segi: Sem betur fer.