Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 10:36:04 (4906)

[10:36]
     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 323 um stofnun sjóðs til að styrkja efnilega íþróttamenn. Flm. ásamt mér eru þingmenn úr öllum flokkum utan Kvennalistans.
    Mál þetta er flutt hér í þriðja ef ekki fjórða sinn og er ósk flm. að það fái nú að njóta sín í nefnd og fái afgreiðslu þaðan og þingið fái að taka afgreiðslu til málsins. Ég mun fjalla örlítið nánar um það síðar hvernig á þessu máli hefur verið tekið á fyrri þingum. Í greinargerð segir, með leyfi forseta, eftirfarandi:
    ,,Íþróttir eru sívaxandi hluti daglegs lífs hjá almenningi hér á landi. Daglega leggja þúsundir manna á öllum aldri stund á íþróttir um land allt, bæði innan dyra og utan. Með auknum frítíma og áhuga á einstökum greinum íþrótta hefur mikilvægi íþrótta margfaldast fyrir fólkið í landinu. Íþróttahreyfingin og keppnisíþróttirnar eru aflvakinn að íþróttaiðkuninni og fullyrða má að almenningur ætti þess ekki kost að iðka ýmsar íþróttagreinar í hinum fjölmörgu íþróttamannvirkjum ef ekki hefði notið við dugmikilla og fórnfúsra einstaklinga sem lagt hafa á sig ómælt erfiði og oft og tíðum mikil útgjöld.
    Jafnframt aukinni íþróttaiðkun hefur geta íslenskra íþróttamanna í keppni aukist ár frá ári og árangur þeirra vakið athygli víða um heim.
    Afreksíþróttir eru viðurkenndur og þýðingarmikill þáttur í almennri uppbyggingu íþrótta. Flestar þjóðir telja afrek á alþjóðavettvangi bestu og ódýrustu landkynningu sem völ er á og þar með hlýtur að vera tímabært fyrir okkur Íslendinga að meta að verðleikum kynningar- og áróðursgildi afreksíþrótta. Gott dæmi um kynningar af þessu tagi er frábær árangur fatlaðra íþróttamanna.
    Það hefur háð markvissri uppbyggingu og langtímaþjálfun afreksmanna okkar að þeir hafa ekki getað gefið sig óskipta að æfingu, t.d. fyrir Ólympíuleika og heimsmeistarakeppni, vegna baráttu fyrir daglegu brauði. Óhugsandi er að í framtíðinni verði unnt að treysta alfarið á dugnað og atorku nokkurra forustumanna íþróttahreyfingarinnar til þess að unnt verði að ná afreksárangri. Við verðum að gera átak í þessum efnum.
    Fjárframlög ríkisins til íþróttahreyfingarinnar eru sáralítil og hafa verið skorin rösklega niður sl. ár. Ef við berum okkur saman við aðrar Norðurlandaþjóðir geta alþingismenn ekki litið kinnroðalaust framan í æskufólk sem leggur sig í líma við að hefja nafn Íslands til vegs á erlendum vettvangi. Nú er og komið fordæmi fyrir því að afreksmenn njóti náðar Alþingis, en með samþykkt stjórnarfrumvarps um Launasjóð stórmeistara í skák er brautin rudd og ber að fagna því. Frumvarp þetta er af sömu rótum runnið og sniðið að þörfum íþróttahreyfingarinnar.``
    Þannig hljóðar hin stutta greinargerð með þessu frv.
    Frv. er sex greinar. Í 1. gr. er farið yfir stofnun sjóðsins og hversu hár hann skuli vera. Þar er talað um að stofnfé sjóðsins skuli samsvara árslaunum fjögurra háskólakennara, en í upphaflega frv. sem flutt var fyrir 3--4 árum var farið fram á árslaun 40 háskólakennara. Það hefur því verið dregið verulega úr þeirri kröfu og farið fram á mjög lágar upphæðir í þennan sjóð, enda meginhugsunin að koma honum á laggirnar og síðan vonandi að vinna að því að styrkja hann þegar fram líða stundir. Það er einnig talað um tilgang sjóðsins en hann er sá að skapa efnilegum íþróttamönnum fjárhagslegan grundvöll til að helga sig íþrótt sinni.
    Í 2. gr. er fjallað um það að fjárveiting til sjóðsins eigi að koma í fyrsta sinn á fjárlögum fyrir árið 1995, þ.e. næsta ár, og síðan skuli áætluð á fjárlögum fjárveiting ár hvert sem nemur eigi lægri fjárhæð en greinir í 1. gr.
    Í 3. gr. er talað um hverjir hafi rétt til að öðlast styrk eða greiðslu úr sjóðnum en það eru þeir sem sýna ótvíræða hæfileika í íþróttagrein sinni og eru líklegir til afreka á því sviði. Einnig er fjallað um hverjir senda inn tillögur um aðila sem styrkhæfir þykja en það eru sérsambönd ÍSÍ, en þar fyrir utan hljóta auðvitað að vera kennarar, íþróttakennarar, íþróttaþjálfarar og foreldrar og jafnvel hugsanlega einhverjir fleiri.
    Síðan er talað um í 4. gr. hvernig skipan stjórnarinnar á að vera en hún á að vera til þriggja ára og það er menntmrh. sem skipar stjórn sjóðsins. Gert er ráð fyrir að í henni skuli sitja þrír menn, einn tilnefndur af ÍSÍ, einn af Íþróttanefnd ríkisins og einn skipaður án tilnefningar og skuli hann jafnframt vera formaður en varamenn skulu hins vegar skipaður á sama hátt.
    Í 5. gr. er síðan reglugerðarheimild fyrir menntmrh. um framkvæmd laga þessara, um vörslu sjóðsins og um úthlutun úr honum.
    Eins og ég sagði í upphafi þá er frv. endurflutt að ég hygg í fjórða sinn og ég verð aðeins að fá að fjalla um það hvernig á þessu máli var tekið í upphafi, hvernir mál eru kannski oft meðhöndluð í nefndum. Ég hef áður lýst því yfir að það er mín skoðun að öll mál eigi að fá afgreiðslu í nefndum, þau eigi að koma inn í þingið og það sé þingið sem eigi að taka afstöðu til málanna en ekki þeir 9 menn sem sitja í þingnefndunum. Þeir eigi ekki að taka atkvæðisréttinn af hinum þingmönnum 54 sem hér sitja.
    Þannig var með þetta frv. að þegar það var flutt fyrst þá voru hátt í 30 flm. að frv. Það var mikill meiri hluti almennra þingmanna stjórnarliðsins og mikill fjöldi þingmanna einnig úr stjórnarandstöðunni utan Kvennalista. Þrátt fyrir það fékk þetta mál ekki að koma út úr nefnd. Ég segi það alveg berum orðum að slík meðferð þingnefndar á máli er hreint og klárt ofbeldi. Það er hreint og klárt ofbeldi. Vilji þingsins er nokkuð ljós. Þegar hátt í 30 þingmenn og meiri hluti almennra þingmanna stjórnarliðsins flytja frv., þá er alveg klárt hver vilji þingsins er, þá er alveg klárt að vilji þingsins stendur til þess að samþykkja það frv. sem þessi fjöldi þingmanna skrifar upp á. Því er mér algerlega hulin ráðgáta hvers vegna virðuleg menntmn. hefur ekki treyst sér til að afgreiða þetta mál út úr nefnd, hvers vegna nefndin beitir slíku ofbeldi í máli sem þessu að leyfa þá ekki þingheimi í heild sinni að taka afstöðu til málsins. Nú man ég ekki hverjir sitja í virðulegri menntmn. en ef einhver fulltrúi menntmn. er hér í salnum, þá mundi ég gjarnan vilja óska eftir skýringu á því hvers vegna slíkt mál kemur ekki út úr nefnd. Er það andstaða við íþróttahreyfinguna í landinu? Ég neita að trúa því. Er það hugsanlega andstaða við 1. flm.? Það er trúlegri skýring.
    Mér finnst þetta mál, þó að það sé ekki stórt í sniðum og það skipti engum sköpum fyrir þjóðfélagið, vera þess eðlis að forsætisnefnd þingsins á ekki að láta slíka hluti viðgangast. Hún á ekki að láta þingnefnd komast upp með slíkt ofbeldi eins og beitt er í þessu máli. Það er fyrir neðan allar hellur og það er fyrir neðan virðingu þingsins að svona sé tekið á málum.
    Ég hef viljandi skorið niður fjölda flm. Ég taldi óþarft, ég veit um stuðning þeirra sem voru í upphafi. Ég hef talað við þá alla. Sá stuðningur er enn til staðar og það var óþarfi að hafa alla aftur sem meðflm.
    Þetta frv. fjallar m.a. um þá sorglegu staðreynd að við hugsum ekkert og hlúum ekkert að okkar íþróttafólki, því fólki sem á einhverja möguleika á að ná langt í sinni íþrótt, á möguleika á að vinna til afreka og verða afreksfólk. Ég fullyrði það að við týnum langflestu efnilegu íþróttafólki á leiðinni vegna þess að það fær ekki tækifæri til að helga sig íþrótt sinni. Allir viljum við styðja þetta fólk á tyllidögum úti um allt land þar sem menn eru að mæta við hinar og þessar uppákomur í kringum íþróttahreyfingina. Þá setja menn upp geislabauginn og vilja allt fyrir íþróttahreyfinguna gera. En þegar hér er komið inn þá hefur greinilega hugur ekki fylgt máli. Mér þykir það sorglegt og mér þykir það röng stefna. Menn þurfa ekki annað en líta í kringum sig í heiminum. Hvað var að ske síðast í íþróttaheiminum? Það voru vetrarleikarnir í Lillehammer. Vilja menn reyna að leggja mat á það hvers konar gífurleg landkynning það var fyrir Noreg að halda þá keppni, hvers konar gífurleg landkynning og hver hagnaður, bara beinn peningalegur hagnaður hefur verið af því fyrir norsku þjóðina og verður í náinni framtíð? Vilja menn leggja mat á það hvað norskir íþróttamenn sem stóðu sig frábærlega vel, hvers konar gífurleg landkynning þeir eru fyrir þjóðina? Vilja menn reyna að leggja peningalegt mat á það að reikna út dálkaverð í auglýsingum, tíma í sjónvarpi eða tíma í útvarpi? Þetta vanmeta menn algerlega hér.
    Við getum bent á hestaíþróttirnar okkar, hvers konar gífurleg landkynning það er fyrir okkur og þeirra árangur á erlendri grund, enda er útflutningur á íslenskum hrossum að verða stór útflutningsgrein og fer vaxandi og mun skila verulegum peningum í tóman ríkissjóð. Svona er hægt að telja upp marga, marga þætti íþróttanna sem eru afar mikilvægir. Við getum minnst á HSÍ, handknattleikssambandið, sem nú ætlar að standa fyrir heimsmeistarakeppni. Það mun ekki verða nein smálandkynning fyrir Ísland og mun afla okkur tekna í leiðinni.
    Hvað mundu menn þá segja um KSÍ, knattspyrnusambandið? Knattspyrnusambandið er núna að fara að leika í Bandaríkjunum, þeir eru að fara að leika í Japan, þeir eru að fara að leika í Brasilíu. Hvað halda menn að margir Brasilíubúar þekki Ísland eða viti yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut um það? En hjá þjóð eins og Brasilíu þar sem annar hver maður lifir fyrir knattspyrnu mun nafn Íslands verða á allra vörum, milljónatuga. Þessa þætti eiga menn ekki að vanmeta. Og enn getum við haldið áfram. Fatlaðir íþróttamenn hafa slegið í gegn hvar sem þeir hafa farið, slegið met, heimsmet, Evrópumet, hvaða nafni sem ber að nefna. Allt er þetta gífurleg landkynning, en við erum ekki tilbúnir að styðja við bakið á þessu fólki af neinu viti.
    Hér er eitt lítið frv. sem getur orðið stofninn að því að við verðum öflug íþróttaþjóð. Við getum vel eignast íþróttamenn á heimsmælikvarða ef við sinnum þeim, ef við týnum þeim ekki alltaf á leiðinni og það er það sem þetta mál hér snýst um, að ógleymdum öðrum þáttum svo sem forvarnastarfi sem veitir nú ekki af að virkja og styrkja og það er ekkert til sem er betra forvarnastarf gagnvart neyslu vímuefna, hvort sem það er áfengi, tóbak eða eitthvað annað verra heldur en öflugt íþróttastarf. Það er ekkert til. Um það hefur verið gerð mikil, stór og merkileg könnun af prófessor Þórólfi Þórlindssyni þar sem þetta er leitt mjög skýrt í ljós. Og það kemur fleira í ljós í þeirri könnun. Það kemur í ljós m.a. það að námsárangur íþróttamanna er til muna betri en þeirra sem ekki stunda íþróttir þannig að það er nánast alveg sama hvar borið er niður. Þar sem íþróttir eru öflugar og þar sem þær eru stundaðar, þá eru þær af hinu góða. Þess vegna á Alþingi Íslendinga að viðurkenna slíkt. Það á að viðurkenna það í verki með því að styðja duglega við bakið á íþróttahreyfingunni og það höfum við ekki gert. Ég heyrði að vísu hæstv. forsrh. segja það úr ræðustól um daginn að við værum að styrkja íþróttastarfið í landinu. Ég veit ekki með hvaða hætti það er, það er ekki á fjárhagslegum grunni. Menn geta flett upp í fjárlögunum og séð að þar hafa hlutirnir ekkert breyst. En það er hins vegar gott ef sú hugmynd er uppi en þá vildi ég gjarnan kalla eftir því með hvaða hætti það á að vera en það hefur ekki verið gert.
    Uppeldisþáttur íþróttanna er líka gríðarlegur og menn vita það hvernig ungviðið lítur upp til afreksmannanna, af hverju ungt fólk hópast í ákveðnar íþróttir. Það er vegna þeirra afreksmanna, þeirra sem eru að ná árangri á því sviði og að þeir menn eru góðir fulltrúar sem hafa fengið þetta íþróttalega uppeldi sem er gífurlega mikilvægt.
    Virðulegi forseti. Ég hef, eins og ég sagði í upphafi, talað fyrir þessu máli nokkrum sinnum áður og tel óþarfa að hafa mikið lengra mál um þetta. Ég vona að einhver fulltrúi menntmn. sé hérna inni og svari fyrir það hvers vegna þetta mál hefur verið beitt þinglegu ofbeldi vil ég kalla það, af hverju það hefur ekki fengið að koma úr út nefnd þrátt fyrir mikinn fjölda flm. En ef enginn er til staðar til að svara fyrir það þá vona ég þó í lokin að vilji þingsins fái að koma fram. Ég vona að nefndin hafi það í huga að það er skýr vilji fyrir þessu máli og frv. verði afgreitt út úr nefnd.
    Að lokinni þessari umræðu þá óska ég eftir að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.