Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:18:03 (4911)


[11:18]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er engin hætta á að ég sé á leið í Framsfl., ég get svarað því strax. Ég get líka svarað því að ég mun styðja þá tillögu að endurskoðun á lögunum fari fram. Hins vegar tel ég að ástæða sé til að hafa af því ótta þegar tillaga er flutt sem er svo lík þeirri tillögu sem við fluttum hér í haust að það geti kannski orðið til að tefja framgang fyrri tillögunnar og að menn vilji þá slá þessum hlutum saman. Ég var farinn að vonast til að við fengjum afgreiðslu á fyrri tillögunni út úr sjútvn. og að það yrði farið að vinna eftir henni. Ég held því að við ættum að sameinast um það vegna þess að ég efast ekkert um að við höfum sama hug í þessu máli, þ.e. að við fáum sem mesta atvinnu út úr síldveiðum og vinnslu síldar og það verði unnið sem mest af síld til manneldis í landinu. Það er það sem við erum sameinuð um að vilja og þá þurfum við auðvitað að vinna þannig að málunum að það gangi sem allra fyrst það sem þarf að gera. Það sem þarf að gera kemur fram í fyrri tillögunni. Hitt var ég líka að segja að ég held að það hafi komið skýrt fram, a.m.k. tel ég mig hafa upplýsingar um það eftir að hafa kannað málið í sambandi við okkar tillögu, að síldarútvegsnefnd hefði ekki staðið vegi fyrir nýjum aðilum sem hefðu viljað selja síldarafurðir. Þess vegna taldi ég að það hastaði kannski ekki afskaplega miklu í sambandi við endurskoðun laganna.