Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:21:26 (4914)


[11:21]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Það er að miklu leyti komið fram það sem ég ætlaði mér að fjalla um. Það var hvort ekki mætti taka þessar tillögur sameiginlega til umfjöllunar og afgreiðslu. En sú tillaga sem við ræðum núna lýtur fyrst og fremst að því að afnema að nokkru, að því er ég tel, einokun sem er á útflutningi saltsíldar.
    Síldarstofninn er í góðu ástandi og það er ástæða til að gera átak í sölumálum síldar til manneldis. Það er staðreynd að á þeim árum þegar síldarstofninn var í lægð þá töpuðum við mörkuðum. Viðskiptaaðilar okkar í austri, þ.e. gamla Sovét er fallið og það er ljóst að það verður örðugt fyrir þá að gera kaupsamninga við okkur og kannski fyrir okkur að gera kaupsamninga við þá þar sem engir fjármunir eru þar til að gera við okkur verslunarsamninga því þeirra fjárhagur er í rúst.
    Ég tel að einstaklingar eigi að hafa fullt frelsi til að afla markaða. Ég tel að í kjölfar alþjóðasamninga eigum við að veita meira viðskiptafrelsi í útflutningi íslenskra sjávarafurða en nú er. Það má reyndar segja um fleiri íslenskar afurðir. Mér eru landbúnaðarmálin hugleikin. Útflutningshöft varðandi landbúnaðarafurðir eru óviðunandi. Við erum með sprengfullt land af kjöti. Svína-, nauta-, fugla- og lambakjöti. En samt þarf að klífa þrítugan hamarinn hafta til að geta fengið leyfi til útflutnings afurða sem eru vandamál vegna þess að markaðurinn innan lands nægir ekki.
    Almennt sagt varðandi þessi mál þá á ég þá ósk að markaðssetning íslenskra afurða verði tekin til sérstakrar endurskoðunar og samræmt verði átak um markaðssetningu án þess að hefta frelsi einstaklinga til framtaks á þessum sviðum.
    Ég vona að þetta mál fái góða meðferð hjá hæstv. sjútvn. og síðan hjá hæstv. ríkisstjórn. Það sem menn eru að fjalla um er að sjálfsögðu atvinnulífið í landinu. Þetta er nátengt þeirri umræðu sem hér hefur verið í gangi á undanförnum dögum og vikum. Menn eru að tala um atvinnumálin.
    Ég vil taka undir þá skoðun hv. 3. þm. Vesturl., að það þurfi að móta stefnu til nýtingar síldarstofnanna. Það er auðvitað verið að fjalla um það í þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Ég vil einnig taka undir þá skoðun, sem kom fram og mér þótti góð, að veiðar síldar til manneldis verði frjálsar. Ég er með efasemdir um að rétt sé að leyfa loðnuskipum að moka upp síld til bræðslu í þeim mæli sem gert hefur verið. Við eigum að láta veiðar á nytjastofnunum okkar til manneldis ganga fyrir eins og hugsunin er almennt hjá þjóðinni.
    En ég kom fyrst og fremst upp í stólinn til að tjá hug minn um það hvernig ætti að fara með þessar tillögur tvær sem hafa hér verið nefndar og vona að menn nái saman um farsæl málalok.