Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:28:20 (4918)


[11:28]
     Einar K. Guðfinnsson :

    Virðulegur forseti. Ég stend nú hér upp til að ítreka andstöðu mína við þessa þáltill. eins og ég gerði raunar á sínum tíma þegar þessi mál voru rædd í nóvember 1992. Ég tel að þessi þáltill. sé gjörsamlega óþörf og það sé ekkert í skipulagi útflutnings á saltsíld sem geri það að verkum að það kalli á einhverja sérstaka endurskoðun á lögunum.
    Í raun og veru hefur þetta kerfi sem við búum við varðandi útflutning á saltsíldinni reynst mjög vel. Við sjáum það m.a. á því að hvergi nokkurs staðar í heiminum fer hærra hlutfall af síld til manneldis en einmitt á Íslandi. Menn gleyma því líka að mál hafa verið að þróast með þeim hætti á síðustu árum að stærri hluti af síld sem á annað borð fer til manneldis fer í frystingu og er seldur af hinum og þessum aðilum úti um allan heim. Og það hefur einfaldlega verið þannig á síðustu árum a.m.k. að þó menn hafi ætlað að með hruni Sovétmarkaðarins yrðu vandræði við að koma manneldissíldinni á markað þá er staðreyndin sú að það hefur ævinlega skort síld á manneldismarkaðinn á undanförnum vertíðum og það hefur frekar verið vandamálið.
    Ég held að það sé nefnilega ekkert í skipulagi núverandi útflutnings á síld sem kalli á einhverjar sérstakar breytingar. Þetta kerfi hefur reynst prýðilega. Það er athyglisvert í þessu sambandi að framleiðendur á síld, hagsmunaaðilarnir, þeir sem best þekkja til, þeir sem hafa mesta hagsmuni af því að þetta skipulag sé sem best og leiði til sem hæsts verðs eru allir sammála um að þetta fyrirkomulag sem menn hafa búið við árum saman sé hið besta. Og sannleikurinn er sá að menn fara hér mjög út um víðan völl og vaða um í villu og svima. Vegna þess að það hefur aldrei staðið á því vegna skipulagsins að menn gætu flutt út síld sem hafa óskað eftir því.
    Það er rangt, sem hefur verið haldið fram, að síldarútvegsnefnd hafi hér einhverja einokun. Það er að vísu tekið fram í lögum um útflutning saltsíldar að sjútvrh. sé heimilt að veita síldarútvegsnefnd þetta einkaleyfi til eins árs í senn. Þetta einkaleyfi hefur aldrei verið veitt nema með samþykki allra samtaka síldarsaltenda, útvegsmanna og sjómanna og það hefur verið veitt til eins árs í senn. Síldarútvegsnefnd hefur ekki sótt um þetta einkaleyfi í mjög mörg ár þannig að menn eru einfaldlega að glíma við eitthvað sem ekki er til. Menn eru að berja hér á meintri einokun sem ekki er til. Einokunin felst ekki í öðru en því að það er frjáls niðurstaða þeirra aðila, sem ég hef hér verið að nefna, útvegsmanna, sjómanna og síldarsaltenda að þeir vilja hafa þetta kerfi og hvers vegna í dauðanum skyldi þá löggjafinn fara að beita sér fyrir því að endurskoða kerfi sem allir vilja viðhalda sem gleggst þekkja til, hafa mesta hagsmuni af því og vita auðvitað best í hverju hagsmunirnir liggja? Það er ekki verið að girða fyrir það að menn geti flutt út síld sem það hafa viljað. Ég nefni það að oft og tíðum hafa komið upp tilvik þar sem menn hafa verið að vekja athygli á því að þeir gætu selt síld og það væri kannski fróðlegt að rifja upp hvernig sá útflutningur á saltsíld hefur síðan tekist þegar til kastanna kom. En það er kannski önnur saga.
    Aðalatriðið er sem sagt þetta. Það er ekki rétt að það sé einokun á útflutningi á saltsíld. Það er í öðru lagi þannig að við búum við skipulag sem er mjög góð sátt um og í þriðja lagi er þessu skipulagi komið á með frjálsu samstarfi aðila. Og ég held að annað atriðið sem ég nefndi, að um þetta mál er mjög góð sátt, sé mjög athyglisvert vegna þess að því er einmitt þannig varið að um aðra þætti útflutningsmála okkar í sjávarútvegi, t.d. útflutning á frystum fiski á sínum tíma til Bandaríkjanna, útflutning á saltfiski svo ég taki sem dæmi, tókust menn á. En varðandi saltsíldina hefur verið mjög góður friður. Menn hafa viljað standa vörð um þetta fyrirkomulag. Og ef við undanskiljum þessa þáltill., sem er nú flutt í annað sinn að ég hygg, var flutt hér í fyrra í lok árs 1992, þá virðist mér að áhugi manna á því að breyta þessu ágæta fyrirkomulagi sé bara afskaplega lítið til staðar. Þess vegna tel ég að þetta sé ástæðulaus þáltill. Ég íteka það sem ég sagði á sínum tíma í umræðunni um þetta mál og tel þess vegna að það sé ekki tilefni til að samþykkja hana.