Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:39:58 (4922)


[11:39]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við hæstv. umhvrh. erum að sjálfsögðu sammála um það eins og ævinlega að við viljum ýta burtu höftum, en það verður ekki gert með því að brjóta niður það skipulag sem aðilar hafa komið sér saman um að sé heppilegt. ( Umhvrh.: Viltu ekki SÍS aftur?) Ég hef ekkert á mót því að samvinnuhreyfing sé til staðar í landinu og ég vona að hæstv. umhvrh. sé ekki sérstaklega á móti því að samvinnuhreyfing, frjáls hreyfing, sé til staðar í landinu. Ég hef ekkert við það að athuga. (Gripið fram í.) Aðalatriðið er að ég fái að komast að fyrir frammíköllum hæstv. umhvrh. og skrafi hans í þingsalnum og ef ég mætti komast að, þá vil ég einfaldlega vekja athygli á því að þetta mál snýst ekkert um spurninguna um höft eða ekki höft, einokun eða ekki einokun. Þetta mál snýst einfaldlega um það hvort við viljum leggja stein í götu þess skipulags sem þeir aðilar sem við það eiga að búa vilja hafa. ( GunnS: Nei.) Þessir aðilar vilja hafa þetta skipulag með þeim hætti að síldarútvegsnefnd annist um útflutning á þeirra saltsíld. Skipulag útflutningsmála á saltsíld hefur aldrei staðið í vegi fyrir því að fleiri menn gætu komið að sem það kjósa og þess vegna er tilefnislaust að vera að taka til endurskoðunar lög sem menn vilja búa við óbreytt og hafa tryggt það að þeir aðlar sem vilja koma að sölunni á saltsíldinni hafa getað átt að henni frjálsan aðgang. Þess vegna er þetta algerlega ástæðulaus endurskoðun á lögum sem hafa reynst vel.