Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:41:54 (4924)


[11:41]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég lofa því að vera stuttorður, enda hef ég ekki nógu mikinn tíma til að halda áfram til klukkan hálftvö. Ég þarf þess ekki heldur því að það eru aðeins örfá orð sem ég vildi leggja inn í þessa umræðu.
    Hér liggur fyrir till. til þál. að endurskoða lög um síldarútvegsnefnd og miðist sú endurskoðun m.a. að því að gefa fleiri aðilum kost á því að vinna að markaðsöflun og útflutningi á saltsíld. Síðan segir í greinargerðinni: ,,Ljóst má vera af heimildum í lögum að aðrir flytja út saltaða síld en síldarútvegsnefnd.``
    Nú er í sjálfu sér ekkert að því að endurskoða löggjöf. Ég hef í sjálfu sér ekki á móti því. En ég er sammála hv. 3. þm. Vestf. Ég held að það sé ástæðulaust að vera að eyða kröftum í að endurskoða löggjöf nema sú löggjöf hafi reynst eitthvað sérstaklega illa sem verið er að endurskoða. Satt að segja tek ég alveg undir það að þessi löggjöf hefur alveg reynst bærilega. Síldarsala er nefnilega dálítið sérstök og það er engu saman að jafna eins og hæstv. umhvrh. er að koma hér inn á að það sé eitthvað líkt með útflutningi á þorski og síld. Útflutningur á síld hefur byggst á fyrirframsölu að meira og minna leyti og verður að gera það. Og síldarútvegsnefnd hefur haldið utan um þá hluti og það fyrirkomulag hefur satt að segja reynst alveg bærilega og ég vil koma því að varðandi þessa umræðu og þá endurskoðun sem er lagt til að fari fram.
    Ég hygg að þessi tillaga fari til sjútvn. sem fer sjálfsagt yfir þessi mál, fer yfir rök og gagnrök og hvort ástæða sé til að endurskoða þessa löggjöf. En það er engin ástæða til að endurskoða hana vegna þess að það séu einhverjir sérstakir erfiðleikar í útflutningi á síld sem mundu batna með því að síldarútvegsnefnd t.d. yrði lögð niður eða starfsemi hennar skert á einhvern hátt. Ég held að þeir aðilar sem vinna í þessu hafi látið vel af starfi síldarútvegsnefndar og það sé ekki mikil ástæða til þess að breyta þar mikið um.
    Hæstv. umhvrh. telur að þeim sem námu í Bretlandi og komu heim ungir og efnilegir menn hafi farið aftur síðan. ( Umhvrh.: Það sagði enginn efnilegir.) Ég held að hv. 3. þm. Vestf. hafi þroskast síðan hann kom heim frá námi en ég get varla sagt hið sama um hæstv. umhvrh. vegna þess að síðan hann kom heim frá námi hefur það gerst að hann hefur gengið í Alþfl. og ég tel það ekki þroskamerki.