Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:56:15 (4926)


[11:56]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði í upphafi ræðu sinnar að hann hefði það sterklega á tilfinningunni að hér væri um einhvern misskilning að ræða hjá þeim sem gagnrýndu þáltill. hans. En eftir ræðu hans áðan þá hef ég sterklega á tilfinningunni að það sé um mikinn misskilning að ræða hjá hv. þm. þegar hann talar um einokun á sölu síldar. Það er engin einokun á sölu síldar á Íslandi.
    Mig langar að leggja fyrir hann eina spurningu: Hefur einhver þjóð í heiminum betri sölusamninga en Íslendingar? Getur hann svarað þeirri spurningu?
    Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir gífurlega harða samkeppni á síldarsölumarkaðinum og þrátt fyrir offramboð á síld í heiminum þá hefur Íslendingum tekist að selja miklu meira magn af síld á betra verði en nokkur önnur þjóð í heiminum. Það sem flm. þessarar till. ræðir hér um er að brjóta þessa sölusamninga niður og jafnvel eyðileggja þann árangur sem við höfum náð varðandi verð og magn á sölu síldar.