Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:08:53 (4933)


[12:08]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Aðeins fáein orð vegna þess að mér finnst þessi umræða hafa að sumu leyti verið undarleg. Þeir sem hafa brugðist hart við gegn þessari tillögu hv. þm. hafa talað eins og þessi lög væru mjög góð en lýst því jafnframt að skipulag þessara mála fari ekki eftir laganna bókstaf heldur væri gott samkomulag um framkvæmdina. M.a. væri það þannig að það væri frjálst skipulag að því leyti til að menn sem vildu flytja út síld fengju að flytja hana út. En lögin ganga út á það að á þessu er einokunarréttur. Ég tek undir með hv. flm. að auðvitað er ekkert athugavert við það að endurskoða þessi lög og skoða hvort það eigi að breyta þeim.
    Ég vek athygli á því að hv. flm. er stjórnarþingmaður og það bendir eindregið til þess að hann hafi ekki komist áfram með þetta mál í stjórnarflokkunum að hann skuli bera það inn í þingið í formi þáltill. Það má kannski leiða að því þau rök að það sé ekki líklegt að það sé stuðningur við málið.
    Ég tel að það hljóti að vera ástæða til að endurskoða sumt af því sem er í lögunum, t.d. að síldarútvegsnefnd hafi aðgang að bókhaldi þeirra fyrirtækja sem hugsanlega kæmu nærri útflutningi á síld og fleira. Ég ætla ekki að fara út í að ræða það neitt frekar en tel að það sé aðalatriði málsins að menn sameinist um að taka á í skipulagi veiða og vinnslu með það fyrir augum að atvinna aukist vegna nýtingar síldarinnar og hvet eindregið til þess að við stöndum saman um þá hluti. Ég held að lögin eigi gjarnan að yfirfara og skoða og það er ekkert í því að óttast. Ef þetta skipulag, sem nú er í gildi, hefur orðið til með frjálsum samningum milli aðila hvað eru menn þá smeykir við það þó lögunum verði breytt?