Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:11:37 (4934)


[12:10]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það hafa allmiklar umræður farið fram um þetta mál nú þegar og ég skal ekki taka langan tíma til viðbótar. En það sem er kannski merkilegast við þáltill. er að það er ekki tekið á í sambandi við veiðar og vinnslu eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Það er auðvitað aðalatriðið að meira fari til manneldis og minna í bræðslu. Það er auðvitað aðalatriðið. En það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði líka í blárestina: Hvað eru menn hræddir við? Menn eru hræddir við undirboð. Og eins og kom fram í fyrri ræðu minni þá hefur engri þjóð tekist betur í sölu saltsíldar en Íslendingum. Þess vegna viljum við ekki breyta lögum sem hafa reynst vel, ekki bara vegna sýndarmennsku, ekki bara vegna þess að það séu einhverjir aðilar sem geta velt sér upp hafta --- ég vil meina kjaftæði.
    Og vegna þess að inn í þessa umræðu hafa blandast fleiri lagasetningar þá hefur það komið fram að hv. 1. flm. er á móti því t.d. að verðjöfnun á olíu verði afnumin. En sami hv. þm. er meðmæltur frv. til lyfjalaga sem gerir það að verkum að lyf á Íslandi verða á mismunandi verði. ( GunnS: Hækka ekki.) Þau verða á hærra verði úti á landsbyggðinni heldur en á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er þetta sem mér finnst vera að í málflutningi hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar. Það er þessi tækifærismennska og það er þessi tækifærismennska á flestum hlutum sem ég óttast mest. Þess vegna hef ég allan varann við þegar slíkir aðilar leggja fram þáltill. sem þessa.