Varðveisla tónlistararfs í Þjóðbókasafni Íslands

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:26:10 (4937)


[12:26]
     Flm. (Þuríður Pálsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 688 um varðveislu tónlistararfs í Þjóðbókasafni Íslands. Meðflm. mínir að tillögunni eru hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir, Geir Haarde, Auður

Sveinsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Petrína Baldursdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Árni Johnsen.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd tónlistar- og safnamanna sem setji fram tillögur um það hvernig best verði staðið að varðveislu tónlistarefnis í Þjóðbókasafni Íslands. Jafnframt setji nefndin fram tillögur um hvað til þurfi til að sá menningararfur nýtist sem best komandi kynslóðum í sérstakri tónlistardeild innan safnsins.``
    Í greinargerð segir: ,,Senn líður að því að merkum áfanga í sögu bókasafna hér á landi verði náð. Innan skamms munu Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn flytja alla sína starfsemi og jafnframt allan safnkost sinn í nýja byggingu sem lengi hefur verið í smíðum. Sú bygging hefur fram til þessa verið þekkt undir nafninu Þjóðarbókhlaða. Í Þjóðarbókhlöðunni verður til húsa og undir einu þaki langstærsta og merkasta bókasafn hér á landi sem hingað til hefur verið í tveimur stofnunum og varðveitt á mörgum geymslustöðum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu vegna húsnæðisörðugleika.
    Hér á Alþingi verður bráðlega lagt fram frumvarp til laga um þessa nýju stofnun og mun að því stefnt að það verði samþykkt sem lög fyrir þinglok í vor. Efni frumvarpsins og fyrirhuguð starfsemi safnsins hefur verið kynnt í fylgiriti með Fréttabréfi Háskóla Íslands, 6. tölublaði 15. árgangs. Í því riti ber hin nýja stofnun nafnið Þjóðbókasafn Íslands --- bókasafn Háskóla Íslands.
    Samkvæmt lýsingu í áðurnefndu riti háskólans verður Þjóðbókasafninu ætlað mikið og víðtækt hlutverk:
    ,,Safnið er í senn þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands. Það er til komið við sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns.
    Safnið er rannsóknarbókasafn sem sinnir jöfnum höndum hlutverki þjóðbókasafns og háskólabókasafns og heldur uppi ávirkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs.``
    Hlutverki safnsins er síðan nánar lýst í 19 tölusettum liðum.
    Í hinu nýja safni verður varðveittur margvíslegur safnkostur, handrit á skinni og pappír sem spanna alla ritöld Íslendinga, allar prentaðar bækur frá upphafi prentlistar hér á landi á 16. öld, tímarit, hljóðrit, nýsigögn af ýmsu tagi (filmur, örfilmur o.fl.) svo og tölvugögn. Þessi safnkostur er til kominn með þrennum hætti: Skylduskilum (gildandi lög um skylduskil eru nr. 43/1977), kaupum og gjöfum.
    Þjónusta Þjóðbókasafns verður einnig margþætt. Safnið gegnir skyldum þjóðbókasafns og háskólabókasafns, meðal annars með söfnun, varðveislu, útlánum og millisafnalánum.
    Það sem athygli vekur í því sem fram hefur komið um fyrirhugað hlutverk og þjónustu Þjóðbókasafnsins samkvæmt frumvarpinu er hversu lítil áhersla er lögð á hlutverk slíkrar stofnunar á sviði menningarmála og listalífs. Í aðalgrein um hlutverk safnsins er verksvið þess skilgreint á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs. Þar er ekki minnst á tónlist né aðrar listgreinar eða menningarmál.
    Í þessu nýja safni verða varðveitt ómetanleg gögn um íslenska menningar- og listasögu, ekki síst tónlistar. Þar verða á einum stað:
    1. Tónlistarhandrit sem ná til allrar sögu þeirrar listgreinar hér á landi, frá skinnhandritum með kirkjusöng miðalda, þau elstu frá um 1100, og fram til tónsmíða íslenskra tónskálda á 20. öld. Í handritadeild Landsbókasafns eru nú þegar varðveitt handritasöfn margra helstu og þekktustu tónskálda Íslendinga allt frá dögum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar.
    2. Allar prentaðar bækur, þar á meðal nótnabækur íslenskar frá sálmabók Guðbrands Þorlákssonar 1589 og messusöngsbók hans (,,grallarans``) frá 1594 og fram til nótnabóka sem gefnar hafa verið út með íslenskri tónlist fyrir söngraddir og hljóðfæraleik á okkar dögum.
    3. Öll tímarit sem um íslenska tónlist fjalla og hafa að geyma efni sem varðar tónlist hér á landi fyrr og síðar.
    4. Öll hljóðrit (hljómplötur, segulbönd, snældur og geisladiskar) sem gefin hafa verið út frá því að skylduskil á slíkum safnkosti komu til sögunnar með lögum árið 1977, jafnframt mjög mikið safn eldri hljóðrita allt frá því að útgáfa á hljómplötum með íslenskri tónlist hófst. Stórt safn verðmætra hljóðrita er þó enn þá utan stofnunarinnar og bíður flokkunar og fullkominnar`` --- og öruggrar --- ,,varðveislu``.
    5. Í Landsbókasafni og Háskólabókasafni er til umtalsverður safnkostur með heildarútgáfum þekktustu tónskálda sögunnar, meðal annars verkum eftir Johann Sebastian Bach, Wolfgang Amadeus Mozart og Ludwig van Beethoven.
    Það má öllum ljóst vera að þessi fjölþætti og stórmerki safnkostur, þar sem varðveittar eru allar helstu heimildir um íslenska tónlistarsögu frá upphafi ritaldar og til okkar daga, auk erlendrar tónlistar, mun ekki nýtast eins og hann á skilið nema til komi sú aðstaða og þjónusta sem nauðsynleg er. Til að svo geti orðið er óhjákvæmilegt að í Þjóðbókasafni verði sérstök tónlistardeild með þeim búnaði, tækjakosti og aðstöðu sem til þess þarf að tónlistarefni safnsins nýtist sem best. Notendur þessa efnis verða á ókomnum tímum innlendir og erlendir fræðimenn, tónlistarfólk, nemendur í skólum landsins, ekki síst tónlistarskólum, og allur almenningur sem áhuga hefur á tónlist. Tónlistarefni Þjóðbókasafnsins munu þessir notendur þurfa til rannsókna, vísindastarfsemi á sviði tónlistar, útgáfu, tónlistariðkunar í söng og hljóðfæraleik og síðast en ekki síst til ánægju og gleði.
    Tilgangur flutningsmanna þessarar tillögu er sá að menntamálaráðherra, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, skipi nefnd með hæfustu fulltrúum úr röðum íslenskra tónlistarmanna og þess fagfólks sem vinnur að málefnum safna hér á landi. Þeirri nefnd verði falið að setja fram tillögur um hvernig sá dýrmæti þjóðarauður á sviði tónlistar, sem áður var lýst, verði best varðveittur. Jafnframt setji nefndin fram tillögur sínar um þá aðstöðu sem til þarf að Íslendingar geti nýtt sér þennan menningarsögulega þjóðararf með myndarlegum hætti þegar Þjóðbókasafnið nýja tekur til starfa síðar á þessu ári í þeirri glæsilegu byggingu sem svo lengi hefur verið beðið eftir.``
    Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.