Efling náttúrufræðikennslu í grunnskólum

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 13:01:55 (4943)


[13:01]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er erfitt að ræða þessa tillögu og málflutning hv. flm. öðruvísi en tengja það við umræður sem hér hafa farið fram í þinginu upp á síðkastið og varða einmitt umhverfismál. Ég vil rifja það upp í upphafi máls míns að hv. flm. hafði hér langt mál og snjallt í málefnalegu innleggi sínu í umræðum um frv. til náttúruverndar þar sem hv. þm. lagði ríka áherslu á að það þyrfti að styrkja umhvrn. Og

í umræðum um það frv. sem þá var verið að fjalla um til nýrra laga um náttúruvernd taldi hv. þm. líka því frv. til foráttu að það drægi um of úr vægi Náttúruverndarráðs og skildi eftir lítið vald hjá því.
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að hér er lögð fram till. til þál. um náttúrufræðikennslu og það sem auðvitað sker í augu er að það eru tveir aðilar sem koma með mjög sterkum hætti að náttúrumálum og náttúrufræðslu í landinu sem eru algerlega skornir frá málinu. Það er umhvrn. sem hv. þm. hefur áður lýst yfir að þurfi að styrkja einmitt hér í þessum sölum og það er Náttúruverndarráð sem hv. þm. hefur líka talið að ætti að koma að fræðslu um náttúrumál.
    Það er alveg ljóst að í lögum hafa þessir aðilar með höndum sérstakt hlutverk hvað varðar fræðslu og hv. þm. ræddi það einmitt hér fyrir einhverjum dögum að það væri nauðsynlegt að styrkja fræðsluhlutverk Náttúruverndarráðs. Ég sé ekki hvernig það rímar við þessa tillögu sem þingmaðurinn leggur nú fram.
    Mér finnst það algerlega fráleitt, virðulegi forseti, að samþykkja tillögu um náttúrufræðikennslu ungra barna sem byggist á þeirri forsendu að börn hafi ekki í sama mæli og áður, eins og kemur fram í greinargerð, forsendur til að upplifa náttúruna ef hvorki Náttúruverndarráð eða umhvrn. koma að því. Ég tel að hv. flm. hefði átt að stíga skrefið til fulls og leggja til að þessari þáltill. væri vísað til landbn. Mér er það alveg gersamlega hulið hvernig forustumaður í náttúruverndarmálum á Íslandi eins og hv. flm. er fær það til að koma heim og saman við fyrri afskipti sín af náttúruverndarmálum og fyrri málflutning sinn að leggja til ( KHG: Er ráðherrann ósáttur við málið?) að það verði farið í sérstakan undirbúning að náttúrufræðikennslu án þess að þeir aðilar í landinu sem lögum samkvæmt eiga að fjalla um slík mál komi að því. Ekki mun ég samþykkja slíka tillögu. Það er alveg ljóst.
    Það er líka merkilegt að þeir skólar sem hv. þm. nefnir hér í sinni greinargerð sem mögulegan vettvang fyrir slíka náttúrufræðslu eru t.d. staðir á borð við Alviðru í Ölfushreppi sem er í eigu Árnessýslu og Landverndar. Það vill nú svo til að ein af þeim fyrstu heimsóknum sem ég fékk eftir að ég varð umhvrh. var einmitt frá fræðslustjóranum á Suðurlandi sem falaðist eftir því að umhvrn. veitti liðveislu og fjárstyrk til að byggja upp Alviðru í þessum tilgangi. En það á sem sagt að koma til umhvrn. og fá fjármagn frá því, en síðan á landbrn. og menntmrn. að skera úr um það hvernig með málið á að fara. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég leggst auðvitað ekki gegn því að þessi tillaga fái þinglega umfjöllun en ég mun ekki samþykkja hana. Það er alveg ljóst. Ég mun beita mér gegn henni.