Efling náttúrufræðikennslu í grunnskólum

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 13:33:45 (4953)


[13:33]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Núna þykir mér sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé búinn að steypa yfir sig kufli þess sem vill fara með stráksskap og slá ódýrar pólitískar keilur.
    Í fyrsta lagi, virðulegur forseti, þá hélt ég því aldrei fram að umhvrn. ætti að fara með allt sem lyti að umhverfis- eða náttúrufræðslu. Það sem ég sagði var einungis þetta: Umhvrn. hlýtur að koma að málinu eins og þau ráðuneyti sem nefnd eru í umræddri tillögu.
    Í öðru lagi, virðulegur forseti. Það má vel vera að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé gæddur einhvers konar pólitískri skyggnigáfu og geti séð einhverja hluti sem engir aðrir sjá eða skilja. Það er hins vegar algerlega fráleitt af mínu máli að ætla að reyna að túlka það með þeim hætti að það séu einhverjir sérstakir sambúðarerfiðleikar á milli umhvrn. og menntmrn. Þau samskipti hafa verið afskaplega góð. Þau mættu gjarnan vera meiri. Það er út í hött að skilja það svo af mínu máli að ég hafi verið að áfellast hæstv. menntmrh. Okkar ágreiningsefni í gegnum tíðina hafa verið öllum ljós og þar hafa engin undirmál verið og ég segi það bara af samstarfi mínu við hann þá treysti ég honum fullkomlega til að geta ráðið þessu máli mjög vel til lykta í nánu samstarfi við landbrh. og umhvrh.
    Virðulegi forseti. Nú vil ég biðja hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson aðeins að rifja upp málflutning Alþb. varðandi umhverfismál. Það er einmitt Alþb. sem hefur aftur og aftur lagt áherslu á að umhvrn. eigi að koma að slíkri fræðslu. Nú ég vísa í endalausar ræður hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ætti að lesa vegna þess að hann mundi þá öðlast dýpri og betri að ég ekki segi farsælli skilning á umhverfismálum heldur en hann hefur birt hér í umræðunni í dag.