Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 14:01:41 (4965)


[14:01]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Það er margt breytilegt í heiminum og um þessar mundir mun hæstv. landbrh. vera hér í háloftunum einhvers staðar í vitlausu veðri svo að það getur verið tilviljun hvort hann heyri boðskap hv. þm. Egils Jónssonar. En ég spyr hæstv. forseta í mesta bróðerni, ef ég má orða það svo, þegar maður fer nú að efast um að hæstv. forseti sé forseti alls þingsins: Hvað gerir það að verkum að hér er ekki hægt að hnika til og taka fyrir 3. dagskrármálið? Ég vænti þess að ég fái svör við því. Hvers vegna má ekki nú hinkra við með 2. dagskrármálið og taka á dagskrá um stutta stund 3. dagskrármálið? Hér eru fjögur mál á dagskrá fundarins. Ég spyr um þetta, hæstv. forseti, og vænti að ég fái svör.