Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 14:03:02 (4967)


[14:03]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég tel það skyldu mína að benda á fordæmi og ekki síst þar sem í hlut átti í því tilviki núv. hæstv. samgrh. Sú sem hérna stendur sat á forsetastóli á fjórða tímanum nótt eina fyrir nokkrum árum og krafðist þá núv. hæstv. samgrh. að þáv. hæstv. samgrh. yrði sóttur heim í rúm því hann þyrfti að eiga við hann orðastað. Við því var að sjálfsögðu orðið og hingað í hús geystist þegar klukkan var langt gengin fjögur hæstv. þáv. samgrh. en mætti þá núv. hæstv. samgrh. á tröppunum þar sem hann kvaðst ekki hafa áhuga lengur á að tala við hann. Ég hygg þess vegna, hæstv. forseti, að núv. hæstv. samgrh. verði fyrsti maður til að skilja að beðið verði með umræðuna þar til hann kemur í hús og orðið við óskum stjórnarandstöðu um að hann verði hér viðstaddur og fundinum frestað þangað til.