Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 14:32:49 (4974)


[14:32]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú detta af mér allar dauðar lýs. Ég sé ekki betur en hv. formaður landbn. haldi því enn fram að GATT sé inni í frv. og undrunarsvipurinn leynir sér ekki á hv. sessunaut hans, þingmanni Alþfl. Það er undarlegt hvernig hv. formaður landbn. hefur umturnast í þessu máli. Hann kemur annað slagið af fjöllum, hitt slagið úr álfheimum að mér sýnist og mætti kannski segja um hann eins og sagt var í ævintýrinu: ,,Aldrei hef ég séð svo langan gaur í jafnlítilli grýtu`` eins og þennan hv. þm. nú.
    Hv. þm. Eggert Haukdal bendir á það réttilega, hv. formaður landbn., að það eru þrjú veigamikil atriði sem formaður landbn. féllst á að færu út til þess að ríkisstjórnin gæti lifað. Hann segir í fyrsta lagi að þá snúi það að GATT-samningunum. Í öðru lagi sé þrengt að því hvaða landbúnaðarvörur landbrh. er heimilt að leggja verðjöfnunargjöld á. Og í þriðja lagi að sett séu ákvæði um það hvernig erlend viðmiðunarverð skuli fundin. Getur hv. formaður landbn. hrakið þessi orð samþingmanns hans? Og fyrir utan hitt að lögfræðingar og margir þingmenn halda því fram að hv. formaður landbn., svo ég tali nú ekki um hæstv. landbrh. sem hér er loksins kominn á nýjan leik, hafi enn sett þessi mál í þá réttaróvissu að það verði deilt um þau í þjóðfélaginu næstu missirin.