Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 14:34:53 (4975)


[14:34]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Menn hafa nú orðið vitni að því að þó að pólitísk sinustrá liggi undir gaddi og ís geta þau enn þá skrækt. En það sem skiptir hér meginmáli er til hvaða efnis heimildir landbrh. taka. Þær taka ekki til neinna sérstakra samninga. Þær taka til þeirra viðauka, þeirra vöruflokka sem tilgreindir eru í viðaukum I og II. Heimildir landbrh. eru bundnar við þessa vöruflokka algjörlega án tillits til þess með hvaða hætti og á hvaða grundvelli þeir eru fluttir til landsins.
    Það er svo annað mál að reiknisaðferðirnar eru grundvallaðar á því hvaða samningum slíkur vöruinnflutningur er háður og að því er varðar GATT-vörur sem fluttar eru reyndar til landsins núna á grundvelli gildandi GATT-ákvæða, þá gilda um það tveir/fjórir. Og alveg það sama mundi gerast ef þetta væri óbreytt eftir að við höfum tekið upp nýjar GATT-viðmiðanir. Það er engin breyting á þessu. Þar væri þó einungis hægt að verðjafna upp að þeim heimildum sem verðjöfnunin kveður á um. En eins og ég sagði áðan, ef horfið verður að því ráði, sem mér þykir raunar trúlegast, að beita samtímis tollum og verðjöfnunargjöldum eins og mikið var rætt um í þessari umræðu, þá nægði það til þess að ná tollígildunum líka.