Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:02:32 (4990)


[17:02]
     Frsm. 2. minni hluta landbn. (Gísli S. Einarsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson bar mig þeim sökum að ég væri óheiðarlegur. Ég vil skýra mitt mál með tiltekinni vöru sem kostar 90,150 ECU 100 kg sem þýðir að það eru 72,40 kr. á skráðu EES-verði. Það þarf auðvitað að bæta einhverju við þetta verð til að fá þessa vöru hingað í smásölupakkningu. En þó er það með staðfestingu Gísla Karlssonar að það mætti reikna með 10% í viðbót þannig að varan yrði komin í um það bil 80 kr. Á sama tíma, viðmiðunartímanum frá því í ágúst varð heildsöluverð á viðkomandi vöru 275,80 kr. Til þess að jafna verðið hefði þurft á þessari tilteknu vöru að jafna með 246%. Sams konar útreikninga mætti að sjálfsögðu nota varðandi aðrar vörur. En þarna er um að ræða verðjöfnun upp á 196 kr. á kíló af vöru sem kostar 72,40 kr. Svona dæmi má taka um margar vörur, hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, um margar vörur. Og að bera mig þeim sökum að ég sé óheiðarlegur er nánast óþolandi.