Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:06:52 (4992)


[17:06]
     Frsm. 2. minni hluta landbn. (Gísli S. Einarsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það virðast fleiri vera með einhvern takmarkaðan skilning hér í dag.
    Þegar reynt er að meta áhrif frv. sem við erum með á vöruverð er rétt að gera greinarmun á því hvort verðjöfnunargjöld eru lögð á hreinar landbúnaðarvörur eða unnar samsettar vörur, þetta sagði ég áðan. Hreinar landbúnaðarvörur eru óunnið kjöt, mjólk, smjör og nýtt grænmeti. Frv. sem við erum að fjalla um heimilar að leggja gjöld á þessar vörur sem nemur mismuninum á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði samkvæmt --- hlustaðu nú vel --- samkvæmt núgildandi GATT-samningi. Það eru engin hámarksgjöld á þessum framleiðsluvörum sem ég hef verið að telja upp þannig að þau geta verið mörg hundruð prósent, jafnvel 1.000% ef munurinn er nægilega mikill á milli heimsmarkaðsverðs og innanlandsverðs og heimildunum er að fullu beitt. Það er rétt hjá hv. þm. ef til kemur að samþykkt verði þau tilboð sem ég var að vitna til þá gæti verðjöfnun í prósentum talið orðið á kindakjöti 397%, 538% á svínakjöti, 467% á kjúklingum, 586% á mjólk, 674% á smjöri, 445% á kartöflum, 240% á tómötum, 377% á gulrótum og 719% á sellerí. Bara til að taka dæmi. Þetta var það sem ég ræddi og þetta stendur.