Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:10:05 (4994)


[17:09]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Vegna spurninga hv. þm. vil ég ítreka það sem ég sagði áðan. Það er gerð ágæt grein fyrir því samkomulagi sem gert var í desember milli stjórnarflokkanna í nefndaráliti 1. minni hluta landbn. og skýrir það mál mjög glöggt. Það kom líka fram í umræðum hæstv. utanrrh. þá að það er ekki deila um það milli Alþfl. og Sjálfstfl. hvar valdið til að leggja verðjöfnunargjöld á liggur eins og hægt er að fletta upp í þeim umræðum.
    Í öðru lagi er spurt um yfirráð innflutningsmála. Yfirráð innflutningsmála eru í höndum landbrh. eins og hv. þm. er kunnugt. Hinar spurningarnar viku að GATT og um þær er það að segja að í því samkomulagi sem gert var fólst að nefnd fimm ráðuneyta mun hefja störf til undirbúnings á breytingum á löggjöf sem nauðsynlegt yrði að samþykkja vegna aðildar okkar að hinum nýja GATT-samningi, sem raunar hefur ekki verið lagður fyrir Alþingi. Það verður m.a. verkefni þessarar nefndar að gera sér grein fyrir því og leggja fram tillögur um hvernig rétt sé að beita tollígildum samkvæmt GATT-samningum. Ekki hefur verið rætt um það hvernig framkvæmd lágmarksaðgangs verði háttað.

    Ég vil líka taka fram að nú standa yfir þessa dagana, í gær og í dag, yfirheyrsla í Genf varðandi tilboð okkar vegna GATT-samningsins. Þar hafa komið fram lítils háttar athugasemdir varðandi fóðurgjöld auk tæknilegra ábendinga. Að öðru leyti er mér ekki kunnugt um að athugasemdir hafi verið gerðar við tilboð Íslands vegna GATT-samninganna.