Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:12:18 (4995)


[17:12]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ber að skilja andsvar hæstv. ráðherra á þann hátt að það sé ekkert byrjað á neinni vinnu varðandi það hvernig við ætlum að beita tollígildunum gagnvart GATT, hvað þá lágmarksaðgangi? Ber að skilja orð hæstv. ráðherra á þann hátt að þessi margfræga fimm ráðuneyta nefnd hafi ekki hafið störf enn þá, níu og hálfum mánuði áður en það er líklegt að GATT-samningarnir taki gildi?
    Ég vil einnig benda hæstv. ráðherra á það, af því að hann fór að vitna í ræðu hæstv. utanrrh. frá því fyrir jól, að hæstv. utanrrh. tók það skýrt fram þá að samkvæmt samkomulagi stjórnarflokkanna væru þær lagabreytingar sem nú væri verið er að vinna að eingöngu til bráðabirgða þangað til GATT tæki gildi. Það væri, eins og ég man að hæstv. utanrrh. sagði, síðan sjálfstætt pólitískt úrlausnarefni hvernig GATT-bindingunum yrði beitt sem ríkisstjórnin ætti eftir að taka á. Og beri menn þetta nú saman við nefndarálit 1. minni hluta. Þar er nefnilega enn þá í gangi sami leikurinn milli aðila í Stjórnarráðinu. Menn eru alltaf að reyna að plata hvern annan í lagatexta og setja það þá inn í nefndarálit sem ekki er hægt að ná samkomulagi um í lagatexta. Ég er ekki löglærður maður, en ég held að það sé nokkuð einsýnt hvernig lögfræðingar mundu túlka það þegar þeir fara yfir sögu þessa máls núna þegar ákvæði um GATT eru tekin út úr brtt. Lögfræðingar munu örugglega túlka það þannig að það hafi verið vegna þess að það var vilji þingsins að þessi löggjöf fjallaði ekkert um GATT. Og það er hætt við því að nefndarálit breyti þar engu og ekki síst þar sem það koma tvö nefndarálit frá þeim sem standa að þessum brtt. og þau upphefja hvort annað? Hvað hafa þá dómarar eftir? Ég vil biðja hæstv. ráðherra að velta því fyrir sér.