Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 17:17:25 (4997)


[17:17]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sagði að það yrði að vera mikil sátt í þjóðfélaginu um framkvæmd GATT-samninganna og mæli hann manna heilastur. En það er einmitt það sem hæstv. ráðherra hefur algerlega brugðist í. Það fer ekki fram hjá nokkrum manni sem hefur fylgst með gangi þjóðmála síðustu vikurnar að innan stjórnarheimilisins er allt upp í loft vegna þessa máls og það er kjarni málsins.
    Við fulltrúar Framsfl. í landbn. höfum teygt okkur eins langt og okkur hefur verið mögulegt til þess að ná samkomulagi og sátt. Það hefur ekki strandað á okkur.
    Varðandi hitt atriðið hvernig sú lagabreyting sem nú er verið að framkvæma verði túlkuð og varðandi það að Alþingi, landbn., meiri hlutinn hvarf frá því að hafa ákvæði um GATT inni í textanum, þá ætla ég að nefna við hæstv. ráðherra eina hliðstæðu sem tengist okkar kjördæmi. Nú treystir hæstv. sjútvrh. sér ekki til að veita undanþágu fyrir landanir Mecklenburger-togarana sem Útgerðarfélag Akureyrar á meiri hlutann í. Vegna hvers? Hann hefur heimildir til þess, en hann treystir sér ekki til þess vegna þess að Alþingi sneri ákvæðinu við í umfjöllun sinni frá því að það væri leyft, eins og frv. frá ráðherra var, nema það sem væri bannað, þá væri það bannað nema það sem væri leyft. Þetta túlka lögfræðingar þess ráðuneytis þannig að þarna hafi vilji Alþingis komið skýrt fram og ég er nánast viss um að það sama yrði uppi á teningnum þegar farið yrði í lögskýringar á bak við þá breytingu sem hér er verið að vinna við núna.