Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:18:29 (5000)


[18:18]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er fyrst ein spurning til að ég skilji betur mál hæstv. ráðherra varðandi meðferð tollígilda vegna GATT. Hvaða ráðherra mun hafa forræði með tollígildin þegar þar að kemur?
    Í öðru lagi af því að hæstv. ráðherra talaði um gamlar klisjur áðan. Hæstv. ráðherra sagði: Verðin sem eru notuð til viðmiðunar við GATT eru ekki raunveruleg, þau eru ekki til og þess vegna er ekki eðlilegt að leggja á hámarkstollígildi út frá þeim.
    Nú vil ég benda hæstv. ráðherra á að þetta eru sömu verð og ráðherrar Alþfl. nota þegar þeir reikna út hvað innflutningsvernd landbúnaðarvara kostar. Og sömu ráðherrar eru svo ósvífnir að þeir leyfa sér að reikna það út á hvað þetta kosta hverja fjölskyldu í landinu. Hvað er lagt til grundvallar, hæstv. ráðherra? Verð sem hæstv. ráðherra sagði réttilega áðan að eru hvergi til. Svona eru nú klisjur Alþfl.