Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 18:19:40 (5001)


[18:19]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hv. þm. skuli enn láta sem hann skilji ekki þetta mál ( JGS: Ég skil það ekki.) og leyfa sér þess vegna útúrsnúninga. ( JGS: Þetta er ekki útúrsnúningur.) Það er alveg laukrétt hjá honum að tollígildin eru byggð á grunni sem er tilbúið heimsmarkaðsverð sem hvergi er til á markaði lengur, það er sjö eða átta ára gamalt. Það er hins vegar grunnur fyrir heimildum til verðjöfnunargjalda upp að innlendu verði. Það er ekki Alþfl. heldur var það formaður landbn. sem vildi troða slíku ákvæði inn í grein 2.4 í búvörulagafrv. Ef honum hefði tekist það þá hefði hann haft svo víðtæka

heimild byggða á grunnverði, sem hvergi er til, heimildina samt sem áður jafnháa, sem hefði leitt til þess að ef henni hefði verið beitt að fullu þá hefði verið farið yfir innlent verð og þar með búið að beita hvoru tveggja, verðjöfnunargjöldum og verndartollum.
    Varðandi það sem Alþfl. er að segja er flokkurinn einfaldlega að vara við því að veita svo víðtækar heimildir og það má bæta einu við að. Því hefur verið haldið fram í alvöru af fulltrúum landbrn. að landbrh. sé skuldbundinn til þess samkvæmt búvörusamningi að beita þessu að fullu. Þá væri það orðinn verulega hrollvekjandi veruleiki ef það stæði til.