Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:03:47 (5018)


[19:03]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þótt ég hafi að vísu hæstaréttardóm upp á vasann um það að ég hafi réttari skilning á völundarhúsi búvörulaganna en þeir landbúnaðarráðuneytismenn þá held ég seint að Hæstiréttur muni fara í manngreinarálit milli okkar landbrh. til þess að kveða upp einhverja úrskurði eða eyða réttaróvissu. Hæstiréttur eða hvaða dómstóll sem er mun líta á texta laganna, hann mun að sjálfsögðu þrautkanna ákvæði milliríkjasamninga þar sem þau eiga hlut að máli en að öðru leyti nota nefndarálit sem lögskýringargögn og ekki kvíði ég þeim dómi, svo vel rökstutt sem okkar nefndarálit er.
    Örfá orð að því er varðar þetta grænmetismál. Ég þarf að bera blak af fyrrv. hæstv. landbrh. og taka af tvímæli. Ég ætla einfaldlega að segja það alveg fullskýrt að það var mjög fullkomið og náið samráð um samsetningu á þessum cohesion-lista í fyrrv. ríkisstjórn. Ég gæti reitt hér fram greinargerðir sem lagðar voru fram á ríkisstjórnarfundum um það mál. Það var að sjálfsögðu unnið í samráði við landbrn. Það fóru líka fram viðræður við fulltrúa garðyrkjubænda. Hæstv. landbrh. hefur staðfest að þetta hefur líka gerst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hann hefur líka staðfest að þrátt fyrir það að eitthvað kunni að vera niðurgreitt af þeim fáu tegundum sem fluttar eru inn um háveturinn þá gerir 30% tollur meira en að vega það upp. En hæstv. landbrh. sagði að framkvæmdin væri í skötulíki vegna þess að upprunareglur væru ekki virtar og hér væri verið að flytja inn tollfrjálsar slíkar afurðir frá þriðju löndum. Það er mjög hörð gagnrýni úr munni hæstv. landbrh. á fjmrn. og tollayfirvöld. ( Gripið fram í.: Á samninginn.) Á tollayfirvöld.