Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:14:16 (5026)


[19:14]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég geri í sjálfu sér enga athugasemd um að þessari umræðu sé frestað nú en það er hins vegar alveg rétt sem hv. þm. Jóhannes Geir sagði, hún er athyglisverð fyrir margra hluta sakir og sérstaklega fyrir það að allur fundartíminn síðdegis hefur að frádreginni einni ræðu farið í deilur milli ráðherra og stjórnarþingmanna.
    En ástæðan fyrir því að ég bað um orðið er sú að óska eftir því að framhald umræðunnar verði með þeim hætti að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson geti verið viðstaddur. Það var nefnilega hvorki hæstv. landbrh. né heldur hv. þm. Egill Jónsson sem endanlega sömdu um þennan frumvarpstexta við utanrrh. heldur var það forsrh. Davíð Oddsson. Þeir tveir sem hér hafa talað í dag, hv. þm. Egill Jónsson og hæstv. landbrh., eru þess vegna ekki höfundar þess texta af hálfu Sjálfstfl. sem þeir hafa verið að lýsa hér í dag.

Þess vegna vil ég bera fram þá ósk, virðulegi forseti, að forsetar hugi að því að framhald umræðunnar verði með þeim hætti að hæstv. forsrh. geti verið viðstaddur.