Afgreiðsla hafnalaga

107. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:10:35 (5030)

[15:10]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasta ræðumanni er það að sjálfsögðu vel kunnugt að það er rík hefð fyrir því að verða við óskum þingflokka um að fresta atkvæðagreiðslum ef þannig stendur á og slíkar óskir koma fram. Að því er varðar frestun á umræðum gegnir hins vegar öðru máli og í því tilfelli sem hv. þm. er að tala um var um það að ræða að það var borin fram ósk um að hér væri til staðar ákveðinn ráðherra, hæstv. forsrh., sem var þá í útlöndum og það jafnvel þó að ráðherrann sem flytti málið og gaf út þau bráðabirgðalög sem það mál snerist um væri viðstaddur, hæstv. sjútvrh. Hér er þess vegna gjörsamlega ólíku saman að jafna og það er ómaklegt að gera forseta Alþingis upp einhverjar sakir eða einhverja mismunun í þessu efni. Ég hef ekki orðið var við það að forseti Alþingis mismuni þingflokkum en hitt er annað að það er föst venja að verða við óskum um að fresta atkvæðagreiðslum. Sú ósk var fram borin af mér sem formanni þingflokks sjálfstæðismanna og hún er tilkomin vegna þess eins og hv. þm. gat um að ekki eru nægilega margir mættir til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, þess vegna er farið fram á frest og við því hefur verið orðið nú eins og ævinlega áður.