Afgreiðsla hafnalaga

107. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:21:40 (5037)


15:21]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er líka spurning, hæstv. forseti, hvort orðalagið ,,aflóga`` er þinglegt. Forseti gerði ekki athugasemdir við þessi orð varaformanns Sjálfstfl. hér áðan sem flutti sérstakar leiðbeiningar til forsetans sem er alveg nýr dagskrárliður. Ég hef aldrei heyrt áður að forustumenn stjórnarflokks telji sig þurfa að flytja leiðbeiningaerindi til forseta á þennan hátt.
    Það sem ég vil segja er það, virðulegi forseti, að ég vil mótmæla þessari túlkun varaformanns Sjálfstfl. Jafnvel þó að hann sé varaformaður Sjálfstfl., þá tel ég ekki ástæðu til að taka mark á hv. þm. og hæstv. ráðherra í þessu máli. ( ÁJ: Er túlkunin aflóga?) Vegna þess að ég tel að túlkunin sé aflóga, eins og hv. þm. Árni Johnsen kallar hér. ( Landbrh.: Má ég heyra aftur?) Málið er ósköp einfaldlega þannig að með því að fallast á þessa beiðni hefur forseti skapað það fordæmi að á þinginu hljóta menn að hafa það þannig að þegar einstakir forustumenn þingflokka óska eftir að máli eða atkvæðagreiðslu sé frestað, þá verði það gert. Ef forseti Alþingis mótmælir ekki þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh., þá er óhjákvæmilegt að þessi vinnubrögð hæstv. forseta verði tekin fyrir á réttum vettvangi, þ.e. í forsætisnefnd Alþingis eða meðal formanna þingflokkanna. Eða ætla þeir og þessir aðilar að sitja undir því að forseti Alþingis Íslendinga mismuni þingmönnum með þeim freklega hætti sem hv. varaformaður Sjálfstfl. var að krefjast af forseta Alþingis Íslendinga hér áðan? ( Fjmrh.: Það er rangt.) Það er rétt.