Afgreiðsla hafnalaga

107. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:25:51 (5040)


[15:25]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir leitt hvað þetta hleypur allt fyrir brjóstið á hv. stjórnarandstæðingum. Það eina sem hér hefur verið sagt, og ég tek það fram að ég hlýt að hafa sama rétt á því að túlka þingsköp og segja mitt álit á stjórn forseta og aðrir hv. þm. í salnum, er að þótt þetta mál sé út af dagskrá tekið, þá skapar það, að mínu áliti, ekkert fordæmi því að það er tekið skýrt fram í þingsköpum, nánar tiltekið í 63. gr. þingskapa, með leyfi forseta, þar sem stendur: ,,Forseti getur breytt röðinni á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá.``
    Það er forseta Alþingis að ákveða þetta og það skiptir engu máli hvort um það kemur beiðni eða hvort forseti tekur þetta upp hjá sjálfum sér. Hv. þm. Geir Haarde, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, hefur ekkert vald umfram aðra þingmenn til þess að fara þess leit við forseta og það skapar ekki heldur fordæmi því að ákvörðunin er alfarið í höndum forseta þingsins og um það snýst þetta mál. Meira var ekki sagt, meira átti þetta ekki að þýða og þetta held ég að sé auðskilið flestöllum mönnum og vona ég nú að það hafi komist rækilega til skila hvað sagt var.