Virðisaukaskattur

108. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:46:27 (5049)


[15:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Austurl. ber fram fyrirspurn sem hv. þm. gerði grein fyrir hér áðan. Í máli hv. þm. kom fram að gisting sem ekki bar virðisaukaskatt ber nú 14% skatt en það þarf að geta þess jafnframt að innskattur verður þá frádráttarbær og innskattur gistingar er oftast 24,5% þannig að verðáhrifin eru ekki eins mikil og sýnist.
    Það var hv. efh.- og viðskn. sem breytti að sjálfsögðu í fullu samráði við fjmrn. lagafrv. þannig að inn í lögin kom ákvæði til bráðabirgða þar sem þessi heimild var gefin sem hv. þm. vitnar til. Nýting umræddrar heimildar mun koma fram í reglugerð sem kveður nánar á um endurgreiðslur og endurgreiðslurétt. Reikna má með að sú reglugerð verði gefin út í næsta mánuði. Þess skal getið að fulltrúar Samtaka veitinga- og gistihúsaeigenda komu á fund ráðuneytisins í janúar þar sem farið var yfir þetta mál og um það fjallað í einstökum atriðum.
    Þegar setja þarf reglugerð um þetta mál þarf að hafa til skoðunar ýmsa þætti og vil ég geta um nokkra þeirra hér til þess að sýna að málið er ekki alveg einfalt. Í fyrsta lagi þarf að átta sig á því hvernig á að haga endurgreiðslubeiðnum. Á t.d. að láta alla aðila skila inn endurgreiðslubeiðnum áður en endanlegar reglur um úthlutun hámarksfjárhæðar liggja fyrir og hvaða formskilyrði þurfa að koma fram í umsókninni?
    Í öðru lagi þarf að ákveða hve hratt eigi að greiða til baka og hvenær endurgreiðsla eigi að fara fram, en í lögunum er tiltekið að hún skuli eiga sér stað á árunum 1994, 1995 og 1996 og vera að hámarki 75 millj. kr. Þá er ástæða til að velta fyrir sér hvernig túlka eigi ákvæði laganna sem kemur fram í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis III við lögin um 6% veltuþak. Ábendingar Samtaka veitinga- og gistihúsaeigenda lúta að því að það sé ósanngjarnt gagnvart smáum aðilum og af ýmsum fleiri ástæðum að láta þakið skerða endurgreiðslurétt hvers og eins. Hugsunin var sú þegar þetta ákvæði var sett inn í lögin að takmarka hugsanlegar greiðslur úr ríkissjóði við það að fyrirtæki í litlum rekstri fengju ekki fulla endurgreiðslu. Segja má að þessu skilyrði hafi mátt sleppa þegar sett var inn í heimildina krónutöluþak sem var upp á 75 millj. kr.
    Það mætti hugsa sér samkvæmt orðanna hljóðan að nota 6% þakið á heildarupphæðina en ekki á hvert fyrirtæki fyrir sig. Þetta er eitt af því sem þarf að athuga við gerð reglugerðarinnar.
    Þá hafa komið fram fyrirspurnir um hvort þeir sem kaupa eða leigja gistirými af viðkomandi fjárfesti hafi endurgreiðslurétt. Lagatextinn gerir ekki ráð fyrir því að svo verði, a.m.k. ekki að svo stöddu. Til þess þyrfti að mínu mati að breyta lögunum. Í lagaheimildinni er kveðið á um að fjmrh. setji m.a. reglur um hlutfall af fjárfestingarkostnaði eins og sést á texta laganna. Þessi atriði eru einmitt til skoðunar nú. Ég geri ráð fyrir því að í næsta mánuði verði reglugerðin gefin út en um reglugerðina er fjallað í lok greinarinnar til bráðabirgða og hugmyndin er að eftir að skattframtöl og skil og niðurstaða liggur fyrir í ágúst verði hægt að greiða fyrirtækjunum sem í hlut eiga út fyrsta skammtinn og síðan tvo þá næstu á tveimur næstu árum, á árunum 1995 og 1996. Því miður get ég ekki

verið nákvæmari að svo stöddu því að endanleg gerð reglugerðarinnar liggur ekki fyrir.