Snjómokstur

108. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:57:30 (5055)


[15:57]
     Fyrirspyrjandi (Karen Erla Erlingsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Umræðan síðustu ár og missiri hefur öðru fremur snúist um hvers kyns hagræðingu og sameininu, m.a. sameiningu sveitarfélaga, þar sem ýmsar aðgerðir, svo

sem úrbætur í vegamálum, hafa verið notaðar sem nokkurs konar gulrót á fólkið. Einn er sá hlutur sem virðist þó hafa gleymst í þessari umræðu, sérstaklega á þeim svæðum þar sem vetrarsamgöngur eru erfiðar, að þrátt fyrir stórbætt vegakerfi og afkastamiklar vinnuvélar hafa snjómokstursreglur ekki verið færðar til nútímalegra horfs með það fyrir augum að mæta auknum kröfum og aukinni þörf fyrir tíðari opnun vega.
    Ef ég tek dæmi úr þeim fjórðungi sem ég bý í, Austurlandsfjórðungi, þá hljóða núverandi snjómokstursreglur upp á opnun þrisvar sinnum í viku um Oddsskarð og Fjarðarheiði, tvisvar sinnum í viku um Vatnsskarð, hringvegurinn um Breiðdalsheiði er ekki á áætlun um opnun en það má teljast furðulegt að svo sé. Sama gildir um veginn yfir Hellisheiði til Vopnafjarðar.
    Mig langar í þessu sambandi til að vitna í skýrslu sem m.a. var gerð um snjómokstur á Austurlandi og kom út í mars 1992. Þar er sýnt fram á að miðað við þær endurbætur sem gerðar hafa verið á helstu vegum er sáralítill munur á þriggja daga opnun vega fyrir endurbætur og svo sjö daga opnun eftir þær endurbætur sem þegar hafa verið gerðar hvað kostnað varðar. Þar er einnig sýnt fram á að tíðari opnun vega er hlutfallslega ódýrari kostur fyrir Vegagerðina miðað við þá auknu þjónustu sem hún veitir íbúum slíkra svæða. Því spyr ég hæstv. samgrh.:
    ,,Eru uppi áform um að auka vetrarþjónustu í snjómokstri með það fyrir augum að opið verði alla daga vikunnar milli byggðarlaga?``