Snjómokstur

108. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:59:40 (5056)


[15:59]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. segir til að mynda um Hellisheiði. Vegurinn yfir Hellisheiði var ekki hannaður sem heilsársvegur og við það verður að sitja sem komið er. Sú ákvörðun var tekin áður en ég kom í embætti samgrh. Nýr vegur hefur ekki verið lagður yfir Breiðdalsheiði og það er laukrétt hjá hv. þm. að það er svo um ýmsar þær heiðar þar sem gömlu vegirnir eru enn að ákvörðun hefur verið tekin um það og ég held að menn hafi í stórum dráttum unað við það að snjómokstur sé ekki þar með sama hætti og á uppbyggðum og góðum vegum. Það má nefna ýmsa vegi aðra en þá sem eru í Austurlandskjördæmi sem ég heyri að hv. þm. er mjög kunnugur. Við getum talað um Öxarfjarðarheiði, við getum talað um Lágheiði, við getum talað um veginn eftir Barðaströndinni. Það má svo sem tína ýmsa vegi til. Við getum líka talað um veginn yfir Öxi. Það eru svo sem ýmsir vegirnir.
    Um þessa fsp. er það að segja að nú hittist svo á að endurskoðun á snjómokstursreglum er rétt að ljúka og hefur raunar verið tekin ákvörðun um að nýjar reglur taki gildi í lok þessa mánaðar, þ.e. fyrir páska. Þar verði gert ráð fyrir því að fjölga snjómokstursdögum á aðalleiðum og einnig innan samgöngusvæða. Það er unnt að gera þetta vegna þess að vegakerfið er að verða fullkomnara en áður. Auðvitað þýðir það um leið að vegfarendur gera meiri kröfur en áður. Gott dæmi um þetta er auðvitað leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það má líka minna hv. þm. á að eftir þær vegabætur sem gerðar voru á Mývatnsheiði nú á sl. ári hefur versti snjóakaflinn á því svæði verið byggður upp.
    Á hinn bóginn er ekki hægt að horfa fram hjá því að víða þarfnast vegakerfið verulegra endurbóta áður en hægt er að búast við því að unnt sé að moka þar reglulega og tryggja þannig samgöngur.
    Hv. þm. nefndi þar tvö dæmi. Ég bætti við nokkrum dæmum sem sýnir að við erum ekki komin jafnlangt í vegamálunum og við höfum kosið en allt er þetta á réttri leið.