Hæstiréttur Íslands

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 14:12:00 (5064)


[14:12]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vildi við lok þessarar umræðu fyrst og fremst færa hv. allshn. þakkir fyrir mjög gott og vandað starf við meðferð þessara mikilvægu mála. Það er ljóst að hér er um mjög vandasöm og viðkvæm mál að tefla en um leið mjög mikilvæg og brýn úrlausnarefni. Það hefur tekist að koma málum með skipulagsbreytingum í betra horf á héraðsdómsstigi og að því er varðar meðferð sakamála en verulegur vandi steðjar að varðandi meðferð áfrýjunarmálanna. Þau frv. sem hér eru til meðferðar miða að því að bæta þar úr. Það eru miklir hagsmunir fyrir þá sem leita úrlausnar dómstóla að fá skjóta niðurstöðu og eins og hér hefur komið fram í raun og veru hluti af eðlilegum mannréttindum að dómstólar tryggi tiltölulega skjóta niðurstöðu.
    Ég fagna því að nefndin hefur farið mjög vandvirknislega yfir frv. og gert breytingartillögur sem ég tel flestar vera til bóta. Auðvitað má deila um atriði eins og hvar mörk eiga að liggja varðandi áfrýjunarfjárhæð en ég vil leggja á það ríka áherslu sem kom fram hjá hv. 2. þm. Suðurl. að hér er ekki um að ræða takmörkun á áfrýjunarrétti heldur fyrst og fremst viðmiðunarmörk varðandi það hverjir geta með sjálfkrafa hætti áfrýjað málum til Hæstaréttar en eftir sem áður fer fram í öllum tilvikum sjálfstætt mat á því þó að áfrýjunarfjárhæð sé lægri hvort þeim megi áfrýja.
    Ég geri ekki ágreining við þá breytingartillögu sem nefndin leggur til. Það er vandasamt að meta hvar mörkin eiga að liggja og ekki óeðlilegt að menn vilji fara varfærnislega af stað. Varðandi skipun réttarins með enn fastari hætti í deildir þá fagna ég þeirri breytingartillögu. Ég tel að hún sé ótvírætt til bóta og styrki mjög þá nýju skipan sem hér er verið að mæla fyrir.
    Frú forseti. Ég vil að lokum íteka þakkir mínar til nefndarinnar allrar fyrir þá samstöðu sem um þetta mál hefur tekist og sérstaklega til formanns nefndarinnar.