Mannréttindasáttmáli Evrópu

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 14:31:00 (5066)

[14:31]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki miklu við að bæta eftir svo ítarlega framsöguræðu formanns allshn. að ástæða sé til að hafa langt mál um þetta efni, en ég vil þó aðeins hnykkja á fáeinum atriðum.
    Ég vil fyrir það fyrsta undirstrika það sem fram kemur í lokaorðum nefndarálitsins að talið er mikilvægt að samningur þessi og löggjöf liggi fyrir með aðgengilegum hætti á erlendum tungumálum, þeim sem þar eru tilgreind, ensku og frönsku. Þar er verið að hugsa um hagsmuni þeirra sem ekki eru Íslendingar en kunna að vera hér staddir eða koma hingað af ýmsum mismunandi ástæðum. Það er að mínu viti nauðsynlegt ef við eigum að láta taka okkur alvarlega í mannréttindamálum í heiminum að hafa rit af þessu tagi aðgengileg á öllum þeim stöðum þar sem ætla má að útlendingar komi til landsins. Ég vil undirstrika þetta ákvæði í nefndarálitinu og beina því til hæstv. dómsmrh. að hann taki vel á móti þessum ábendingum nefndarinnar og hrindi þessu í framkvæmd hið fyrsta.
    Hvað varðar efnisinnihald frv. þá vil ég undirstrika það að hér er að mínu viti ekki um að ræða neinn lokaáfanga á þessari leið heldur miklu frekar upphaf ef við lögfestum þessi mannréttindaákvæði. Að mínu viti eigum við hiklaust að stefna að því að taka inn í stjórnarskrá lýðveldisins myndarlegan mannréttindakafla og færi vel á því að mínu viti að menn gerðu það á 50 ára afmæli lýðveldisins. Hvort sem menn ná saman um það sjónarmið eða ekki, þá tel ég að menn eigi að stefna að því í framtíðinni að koma ýmsum mikilvægum mannréttindaákvæðum inn í stjórnarskrá lýðeldisins og sú löggjöf sem væntanlega verður að veruleika innan skamms er að mínu viti áfangi á þeirri leið en ekki leiðarendinn sjálfur.
    Þá vil ég beina fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. í tilefni af lagafrv. Eins og fram kemur í athugasemdum við lagafrv. er það afrakstur nefndarstarfs. Nefndin var skipuð 8. júlí 1992 í framhaldi af dómsniðurstöðu í máli Þorgeirs Þorgeirssonar gegn ríkinu og hlutverk nefndarinnar var að gera tillögur um viðbrögð við þeim dómi eins og segir í bréfi sem dómsmrn. sendi allshn. 23. nóv. 1992 í tilefni af því að nefndin hafði til umfjöllunar frv. frá mér og hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um breytingu á almennum hegningarlögum. Frv. var lagt fram á síðasta þingi og er í því lagt til að fella niður 108. gr. hegningarlaganna. Það frv. var í raun viðbragð, getum við sagt, við dómi mannréttindadómstólsins en varð ekki útrætt. Í bréfinu, sem ég vitnaði til, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Af þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram að í framhaldi af dómi mannréttindadómstóls Evrópu 25. júní sl. í máli Þorgeirs Þorgeirssonar gegn Íslandi skipaði dómsmrh. hinn 8. júlí sl. nefnd sem falið var

að gera tillögur til ráðuneytisins um viðbrögð við dóminum. Var nefndinni sérstaklega falið að kanna hvort þörf sé á sérstakri vernd opinberra starfsmanna eins og gert er ráð fyrir í 108. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt var nefndinni falið að kanna hvort ekki sé tímabært að mannréttindasáttmáli Evrópu verði lögtekinn hér á landi.``
    Þetta bar á góma í umfjöllun allshn. um málið og fram kom að umrædd nefnd hafði ekki þá skilað áliti um þetta efni en þó var samkvæmt bréfi ráðuneytisins meginhlutverk nefndarinnar að gera tillögu um breytingu á ákvæðum almennra hegningarlaga, einkum og sér í lagi 108. gr. þeirra. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmrh. hvað líði tillögu nefndarinnar um þetta efni og hvort hennar sé að vænta á næstunni, en af þeim upplýsingum sem fram komu í allshn. mátti ráða að svo gæti orðið ef menn legðu sig fram.
    Ég vil jafnframt láta það koma fram af minni hálfu að ég tel rétt og vel við hæfi að ráðherra gangi eftir því að fá tillögu nefndarinnar og koma henni til þingsins og ef ekki mundi hv. allshn. taka málið og flytja það til að hraða því í gegnum þingið.
    Fleiri orð er ekki ástæða til að hafa um þetta efni og vísa ég til ítarlegrar framsöguræðu formanns sem hefur unnið þetta mál af miklum ágætum og vil ég færa honum og öðrum nefndarmönnum þakkir fyrir samstarfið í þessu máli.