Mannréttindasáttmáli Evrópu

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 14:43:00 (5068)


[14:43]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil ítreka þakklæti mitt til hv. allshn. fyrir einstaklega vönduð vinnubrögð sem koma skýrt fram í meðförum hv. nefndar á þessu máli eins og öðrum.
    Varðandi þær fyrirspurnir sem hafa komið fram frá hv. 5. þm. Vestf. er það að segja að ég tel sjálfsagt að við sérprentun á mannréttindasáttmálanum og lögunum þegar þar að kemur verði bæði enski og franski textinn birtur í þeirri sérprentun þó að ekki hafi þótt ástæða til að birta annað en íslenska textann í lagasafninu. Ég tel að þau sjónarmið sem hv. þm. setti þar fram séu mjög eðlileg og ætlunin er að á þann veg verði staðið að sérprentun sáttmálans.
    Varðandi síðari fyrirspurn hv. þm. um lok nefndarstarfsins og einkanlega það álitaefni sem nefndin fékk til umfjöllunar, hvort ástæða væri til að veita opinberum starfsmönnum þá sérstöku vernd sem fram kemur í 108. gr. hegningarlaganna, er það að segja að ég vænti þess að nefndin ljúki störfum alveg á næstunni. Því miður hefur það dregist að nefndin lyki störfum. Ég átti von á því að það gerðist fyrir lok síðasta árs en það hefur dregist á langinn og ég hygg að endanleg niðurstaða nefndarinnar komi alveg á næstunni og þá verði hægt að kynna þær tillögur fyrir Alþingi.
    Sjálfur er ég þeirrar skoðunar varðandi álitaefnið um 108. gr. hegningarlaganna að flest bendi til þess að þau sjónarmið sem lágu til grundvallar þessari sérstöku vernd opinberra starfsmanna á sínum tíma séu ekki lengur fyrir hendi án þess að ég ætli á þessu stigi að segja nokkuð fyrir um niðurstöðu nefndarinnar eða á nokkurn hátt að reyna að taka fram fyrir hendurnar á henni en ég hef áður látið þau sjónarmið koma fram af minni hálfu. Ég vænti þess að það dragist ekki öllu lengur að unnt verði að kynna þinginu niðurstöðu nefndarinnar.