Hæstiréttur Íslands

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 14:49:00 (5070)


[14:49]
     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. allshn. fyrir afgreiðsluna á því máli sem hér liggur fyrir sem er 37. mál þingsins og fjallar um breytingu á lögum um Hæstarétt Íslands. Nefndin leggur til að málinu verði vísað til meðferðar hjá ríkisstjórninni eða eins og segir, með leyfi forseta: ,,Með hliðsjón af fyrrgreindu telur nefndin að ekki sé tímabært að taka afstöðu til þessa frv. eins og sér, en í trausti þess að efnisatriði þess verði tekin til athugunar við endurskoðun dómstólareglna leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Ég tel að miðað við það hvað hér er hreyft stórum og róttækum brtt. við lögin um Hæstarétt Íslands sé engin ástæða til að finna að því þó málið sé ekki afgreitt strax á fyrsta þingi heldur tekið til nánari skoðunar.
    Eins og kunnugt er eru efnisatriðin í frv. tvö. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að Alþingi fjalli um skipan hæstaréttardómara þannig að ráðherra dómsmála þurfi að leggja þá tillögu, sem hann hyggst leggja fyrir forseta Íslands, um skipan hæstaréttardómara til samþykkis eða synjunar Alþingis Íslendinga.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að hæstaréttardómari geti ekki fengið leyfi í nokkra mánuði til að gegna öðrum störfum og bindast þannig hagsmunalegum venslum við einhvern annan aðila. Þess vegna verði hæstaréttardómari sem vill fara í lengri tíma í vinnu fyrir annan að gera það upp við sig hvort hann vill vera hæstaréttardómari áfram eða ekki þannig að það verði komið í veg fyrir að óhæfi hæstaréttardómara verði með þeim hætti sem gerst hefur reyndar að undanförnu þar sem þess eru dæmi að hæstaréttardómari hafi farið til langframa m.a. til að gegna dómarastörfum annars staðar á vettvangi sem jafnvel fjallar um niðurstöður hans sjálfs. Það er óeðlilegt og það er brot á þeim anda sem Alþingi hefur verið að móta á undanförnum árum, m.a. í lögunum um stjórnsýsluna.
    Ég tel út af fyrir sig að þau mál sem hér hafa verið rædd að undanförnu og á þessum fundi, hæstv. forseti, séu öll nokkuð merkileg og alveg sérstaklega kannski mannréttindaþátturinn sem var síðasta dagskrármál og ég leyfi mér að nefna hér. Ég tel að þar hafi verið skynsamlega á hlutum haldið. Og ég tel ástæðu til að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir það hvernig á því máli hefur verið haldið. Ég vil einnig nota þetta tækifæri, þó það sé ekki beint sami dagskrárliður, til að taka undir þau sjónarmið sem fram koma hjá hv. 5. þm. Vestf. varðandi mannréttindaþáttinn sem ég tel sjálfsagt að endurskoða í stjórnarskránni og væri glæsilegt ef það tækist að gera það í tengslum við 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins nú í sumar.
    Varðandi Hæstarétt, sem hér er á dagskrá, mætti margt um að segja. Saðreyndin er sú að því verður ekki með góðu móti haldi fram að Hæstiréttur hafi verið að styrkja stöðu sína á undanförnum missirum. Satt að segja er það alveg með ólíkindum hvernig menn hafa haldið á málefnum Hæstaréttar í þjóðfélaginu. Þá er ég ekki bara að tala um athyglisverð dreifibréf sem forseti Hæstaréttar hefur sent frá sér fyrir hönd Hæstaréttar á bréfhaus réttarins, heldur eitt og annað af ýmsu öðru tagi sem menn hafa látið frá sér fara í tengslum við Hæstarétt og um Hæstarétt núna að undanförnu.
    Staðreyndin er sú að það er afskaplega nauðsynlegt að fara rækilega yfir það hvaða ráðstafanir má gera til að efla virðingu Hæstaréttar og treysta hana svo sem kostur er. Alþingi hefur út af fyrir sig gert ýmislegt í þeim efnum. Hér fyrr í dag var afgreitt til atkvæðagreiðslu frv. sem er heldur til bóta til að treysta faglega meðferð mála í Hæstarétti. Ég verð þó að segja að mér finnst stundum sem viss sjálfvirkni renni á Alþingi, þau ár sem ég hef setið hér, þegar mál frá dómsmrn. eru annars vegar. Þá er ég ekki að tala um allshn. því hún vinnur sín mál yfirleitt vel. Það er eins og það renni ákveðið meðvitundarleysi á löggjafarsamkomuna að öðru leyti satt best að segja þegar þessi mál koma upp svo ótrúlegt sem það nú er. Menn hyllast til að líta á allshn. eins og gjarnan er gert á landsfundum stjórnmálaflokka en þangað fer allt sem ekki fer í hinar nefndirnar. Mönnum hættir til að meðhöndla allshn. og líta á hana með svipuðum hætti og gert er þar sem er rangt og ósanngjarnt.
    Þess vegna finnst mér mikið álitamál hvort ekki þarf að tengja þær sjálfvirku sérfræðinganefndir, sem eru starfandi á vegum dómsmrn. um réttarfar, um dómstóla og um þetta og um hitt, betur við það starf sem unnið er á Alþingi með einum eða öðrum hætti þannig að það verði gangvegir á milli til að tryggja það að alþingismenn séu allir með varðandi mótun á grundvallarreglum þjóðfélagsins sem allar snúast um, svo að segja, þær samskiptaleikreglur sem við á annað borð kjósum að setja utan um okkur sjálf.
    Ég vil hreyfa þeirri hugmynd eftir nokkra umhugsun í allmörg ár hafandi horft á þessi mál sem koma frá nefndunum í dómsmrn., sem mér finnst alltaf að séu sömu mennirnir í alla tíð, svo að segja, það eru smábreytingar en þeir eru upp í áratugi þeir traustustu. Ég skora á hæstv. dómsmrh. að beita sér fyrir að laga þetta og það verði reynt að koma þessu þannig við að alþingismenn komi þarna við sögu með greiðari hætti en verið hefur í seinni tíð.
    Ég vil þessu næst, virðulegur forseti, víkja aðeins að þeim umsögnum sem fram komu um þetta mál frá ýmsum aðilum og þakka nefndinni fyrir að hafa sent málið til umsagnar. Þá vík ég fyrst að sjálfsögðu að umsögn frá réttarfarsnefnd en undir hana ritar Hrafn Bragason, sem er líka forseti Hæstaréttar um þessar mundir og skrifar bréf talsvert, eins og kunnugt er. Hann segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Fréttir af umræðum á Bandaríkjaþingi um bandarísk hæstaréttardómaraefni eru þó til þess fallnar að vekja með mönnum ótta um að líkt fyrirkomulag hérlendis mundi veikja Hæstarétt, hræða menn frá því að sækja um dómarasæti og jafnvel skaða embættisferil hæfileikaríkra manna.``
    Það er ekki mikið álit sem menn hafa á Alþingi verð ég að segja. Að umfjöllun um mál af þessu tagi gæti orðið til að skaða embættisferil hæfileikaríkra manna. Ég geri nú lítið með hina sem eru hæfileikalitlir, það er minna mál. En hina hæfileikaríku, að það megi ekki einu sinni taka þau mál upp á Alþingi er nokkuð athyglisvert sjónarmið frá formanni réttarfarsnefndar.
    Hins vegar segir formaður réttarfarsnefndar að réttarfarsnefnd muni taka efni frv. til umræðu ásamt öðru efni til dómstólalaga. Vil ég fagna því og þakka fyrir þá yfirlýsingu. Ég vil einnig vekja athygli á því að það barst um málið umsögn frá Hæstarétti Íslands, dags. 14. jan. 1994. Hún er hins vegar ekki undirrituð af forsetanum heldur varaforsetanum. Það er Haraldur Henrýsson varaforseti sem skrifar undir þá umsögn og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi það efni frv. sem varðar þátt Alþingis í skipun hæstaréttardómara er þó rétt að láta koma fram að hæstaréttardómarar telja slíka tilhögun ekki vera heppilega. En að öðru leyti telja þeir ástæðu til að fara yfir málið í nefnd sem fjalli um frv. um sérstök dómstólalög.``
    Það er einnig rétt að geta þess áður en ég læt nokkuð koma fram af minni hálfu beint um þessar umsagnir að það barst líka umsögn frá Lögmannafélagi Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Það skiptir miklu máli að friður ríki um störf Hæstaréttar og dómara réttarins. Hætt er við að sá friður yrði úti ef þessi skipan frv. yrði að lögum. Það verður að telja það nægilega tryggingu fyrir því að hæfir menn séu skipaðir hæstaréttardómarar að Hæstiréttur sjálfur hefur um það bindandi umsagnaraðild til dómsmrh. Laganefnd Lögmannafélags Íslands mælir því gegn þessari fyrri breytingu.``
    Hins vegar vil ég vekja athygli á því og spyrja hv. formann allshn. að því sérstaklega af hverju síðari breytingartillagan var ekki tekin beinlínis og bara afgreidd með tillögu nefndarinnar. Vegna þess að hún fær í raun og veru mjög góðar undirtektir, t.d. frá laganefnd Lögmannafélags Íslands, en þar segir:
    ,,Laganefnd telur hina fyrirhuguðu breytingu til bóta og er henni meðmælt.``
    Það er því augljóst að laganefnd Lögmannafélags Íslands er hlynnt þessu þó svo að ýmsir hér inni hafi lagst gegn þessari breytingu. Og ég vil spyrja hv. 6. þm. Reykv. og frsm. allshn. hverju það sætir að nefndin tók ekki þessa tillögu út úr til sérstakrar skoðunar.
    Eiríkur Tómasson lögmaður fór yfir þessi frumvörp og segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Um frv. þingmanna Alþýðubandalagsins get ég verið stuttorður. Þar er lagt til að gerð verði grundvallarbreyting á skipun í embætti hæstaréttardómara. Þessi tillaga er að mínum dómi athyglisverð en kallar á mun nánari skoðun, þar á meðal á stjórnskipan landsins í heild. Eðlilegast væri því að ræða hana í tengslum við endurskoðun á sjálfri stjórnarskránni, enda sýnist mér í fljótu bragði að hún kalli á stjórnarskrárbreytingu.``
    Út af fyrir sig getum við rætt það ítarlegar hvort þetta er rétt hjá lögmanninum en ég tel í sjálfu sér að þetta sjónarmið sé allrar athygli vert og ástæða til að hlýða á það.
    Vinnumálasamband samvinnufélaganna fékk þetta mál til umsagnar. Þar er m.a. fjallað ítarlega um fyrra aðalefnisatriði frv. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það er lítill vafi á því að í Bandaríkjunum hefur þetta fyrirkomulag komið í veg fyrir mistök.`` Hins vegar segir að ekki sé ljóst að þetta ákvæði yrði jafngóð vörn og í Bandaríkjunum þar sem það hefur þó ekki reynst nægileg vörn. Því sýnist vera full ástæða til að hugleiða þetta mál betur og leita annarra lausna.
    Síðan segir í þessari umsögn, eins og reyndar frá Lögmannafélaginu líka:
    ,,Önnur grein frv. virðist vera mjög til bóta frá því sem nú er.``
    Neytendasamtökin senda frá sér umsögn um þetta frv. og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Neytendasamtakanna hefur fjallað um frv. og telur það mjög til bóta og mælir því með samþykkt þess. Virðingarfyllst, fyrir hönd Neytendasamtakanna, formaður.``
    Stéttarsamband bænda fékk þetta frv. líka til umsagnar. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Stéttarsamband bænda hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um Hæstarétt, 37. mál. Stjórn Stéttarsambands bænda telur þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á skipan dómara við Hæstarétt horfi til bóta og geti orðið til að treysta stöðu Hæstaréttar. Því er mælt með því að frv. verði samþykkt. Fyrir hönd Stéttarsambandsins, Hákon Sigurgrímsson.``
    Vinnuveitendasamband Íslands mun hafa fengið þetta mál til meðferðar en ég hef ekki séð umsögn frá þeim varðandi þetta mál heldur aðeins um stjórnarfrumvarpið sem var afgreitt fyrr á fundinum, hæstv. forseti.
    Þá hefur borist umsögn um þetta mál frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands og hef ég satt að segja ekki séð umsögn frá Alþýðusambandinu sem ég er jafnmikið ósammála í langri sameiginlegri sögu minni og Alþýðusambandsins við að lesa og yfirlesa það sem frá þeirri stofnun hefur komið. Er það út af fyrir sig athyglisvert og ekkert í sjálfu sér nema gott um það að segja. Þetta er nokkuð ítarlegt plagg og ber að þakka fyrir að Alþýðusambandið hefur lagt vinnu í það að skrifa skjalið. Halldór Grönvold, skrifstofustjóri Alþýðusambands Íslands, skrifar undir.
    Eins og hv. þm. sjá af þessum yfirlestri þá hafa fjölmargir aðilar farið yfir þessar hugmyndir. Ég vil í fyrsta lagi segja að seinni hugmyndin varðandi skipan hæstaréttardómara hefur fengið ágætar undirtektir. Og ég endurtek spurningu mína til formanns nefndarinnar um hana.
    Fyrri hugmyndin, varðandi það að Alþingi staðfesti eða synji um tillögu þá sem dómsmrh. geri til forseta Íslands varðandi hæstaréttardómara fær dræmar undirtektir, að ekki sé meira sagt. Og ég er í sjálfu sér ekkert hissa á því vegna þess að það er í fyrsta sinn sem máli af þessu tagi er hreyft.

    Það er nokkuð athyglisvert að í umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaganna, sem er undirrituð af Árna Benediktssyni, er hreyft þeirri hugmynd að yfirvald dómsmála verði kosið sérstaklega beinni kosningu með þjóðinni. Það getur vel verið að ég sé illa lesin í þessum fræðum en ég man ekki eftir að ég hafi séð þetta víða áður beinlínis í þessu samhengi. Hugsunin mun vera sú að með þessum móti sé hægt að tryggja það að dómsvaldið fái umboðsvald sitt frá þjóðinni beint og milliliðalaust rétt eins og alþingismenn hafa það eða t.d. forseti Íslands. Þetta leiðir auðvitað hugann að því að fyrir nokkrum árum voru uppi hugmyndir um það, m.a. flutt um það stjórnarskrárfrumvarp ef ég man rétt, að framkvæmdarvaldið yrði í raun og veru kosið beint líka. Í frumvörpum sem hv. þm. Vilmundur Gylfason flutti var gert ráð fyrir því minnir mig að forsrh. eða hvort það var forsetinn, sem átti að hafa forsætisráðherravald, yrði kosinn beinni allsherjarkosningu af þjóðinni.
    Allt leiðir þetta hugann að því í sjálfu sér hvort við þyrftum ekki að fara dálítið yfir þessi mál í grundvallaratriðum á nýjan leik núna í framhaldi af því að við höfum verið að reyna að bæta okkar löggjöf og samskiptareglur eins og best verður á kosið á undanförnum árum. Ég held að það sé mikið áhyggjuefni hvað okkur hefur tekist miður að halda á málum varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar þannig að við hefðum getað haldið því í eðlilegum farvegi. Við hefðum þurft að vera hér með fastanefnd sem fjallaði um stjórnarskrármál. Auðvitað ætti að vera til á Alþingi stjórnskipunarnefnd eða stjórnlaganefnd sem ævinlega væri til taks til að fjalla um stjórnarskrármál. Hún gæti þá fjallað bæði um þau mál sem frá þingmönnunum koma en líka um mál sem hún ákveður sjálf að taka fyrir. Þetta segi ég vegna þess að ég held að núverandi fyrirkomulag þar sem stjórnarskrármál eru því aðeins tekin fyrir að flutt séu um þau sérstök frumvörp sé óheppilegt fyrst og fremst vegna þess að það setur málið í óþarflega hátíðlegan og stífan búning. Ég held að það væri miklu líklegra að það væri hægt að fá menn til víðtækrar samstöðu um málin ef svona nefnd væri stöðugt að störfum til að fjalla um ýmis mál sem upp koma, m.a. aðgreiningu dómsvalds, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.
    Um það hefur mjög margt verið sagt og fjarska misjafnlega viturlegt eins og gengur. En það er spurning hvort ekki er nauðsynlegt að slík nefnd verði til með breytingum á þingsköpunum þannig að það verði í raun og veru alltaf til farvegur til að fjalla um stjórnarskrármál.
    Virðulegur forseti. Ég taldi rétt að fara hér yfir þær umsagnir sem borist hafa um þetta frv. um leið og ég þakka fyrir þá tillögu sem gerð er um að vísa málinu með tiltölulega jákvæðum hætti eftir atvikum til ríkisstjórnarinnar og spyr hv. 6. þm. Reykv. hverju það sætir að 2. gr. frv. fékk ekki sérstaka og sjálfstæða meðferð í meðferð málsins í hv. allshn.