Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 16:59:47 (5080)


[16:59]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið mikið umrót í veröldinni varðandi landbúnaðarmál, viðskiptamál öll á undanförnum missirum og árum. Þar er tekist á um grundvallaratriði og meginþróunin er sú í öllum þessum samningum og öllu þessu umróti að það stefnir í frelsisátt í viðskiptum hvarvetna, á öllum sviðum. Íslendingar hafa viljað taka fullan þátt í þessu, að stuðla að því að frelsi í viðskiptum megi aukast og jafnframt að reglur séu skýrar og ljósar og um þær sé hægt að véla og skera úr með tryggum og öruggum hætti. Íslendingar hafa talið þetta mikilvægt fyrir sig sem smáa þjóð, smáa í viðskiptum við miklu stærri aðila. Ég held að það sé ekki verulegur ágreiningur um það hér í þingsalnum að þetta er skynsamleg stefna og það hefur náðst einmitt hér í þingsalnum á milli stjórnmálaflokka miklu meiri samstaða um þessa meginstefnu heldur en margvíslegar deilur gætu gefið fólki tilefni til að halda.
    En við vitum jafnframt að í öllu þessu umróti, öllu þessu samningaferli þykir öllum þjóðum, forráðamönnum allra þjóða, smárra sem stórra, afskaplega mikilvægt að réttindi sinnar þjóðar séu ekki í neinu skert og að í viðleitninni til þess að teygja viðskiptasamninga og almennar viðskiptareglur í frelsisátt, sé ekki gengið frekar á rétt einnar þjóðar en annarrar og menn haldi sínu.
    Auðvitað er það svo að innan þjóðanna eru margir sem hafa hagsmuna að gæta og hagsmuni að verja og það reynir mjög á þolrif stjórnmálamanna og hagsmunagæslumanna --- og þá segi ég það í góðri merkingu þess orðs því að hagsmunagæslumenn eru ekki allir af hinu vonda eins og stundum er gefið til kynna.
    Ég tel afar mikilvægt fyrir Ísland sem lítið land og fámenna þjóð sem þarf að búa að sínu að hennar hagsmunir séu í slíkum samningum tryggðir, að Íslendingar geri kröfu til þess að svigrúm þess lands sé ekki minna en annarra sem taka þátt í viðskiptasamningum á mótun almennra viðskiptareglna í veröldinni. Síðan geta Íslendingar rétt eins og aðrar þjóðir innan borðs hjá sér, á sínum rétta vettvangi, hvort sem það er á löggjafarþingi eða í frjálsum samningum milli aðila notfært sér þann ramma sem þeir hafa tryggt sér í hinum alþjóðlegu samningum. En það hlýtur að vera afskaplega mikilvægt fyrir Íslendinga að gæta þess og berjast fyrir því að okkar svigrúm innan slíkra samninga sé ekki lakara heldur en annarra. Það er hins vegar sjálfstæð ákvörðun okkar sjálfra síðar meir eða þeirra sem við störfum okkar taka að meta það hvort við ætlum að nýta slíkt svigrúm til fulls á hverjum tíma eða ekki.
    Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að það hefur verið bærileg samstaða um það í þessu landi og þessu þingi að Íslendingar eigi að taka þátt í þeim niðurstöðum, þeim umræðum fyrst, viðræðum, samningum og síðan niðurstöðum sem tengjast síðustu lotu GATT-samninganna. Það er afskaplega mikilvægt einnig að aðilar sem þar eiga mikilla hagsmuna að gæta hafa haft víðsýni til að bera til þess að vilja taka þátt í slíkri samningagerð. Ég tel afskaplega mikilvægt að engar flokkspólitískar deilur eða deilur milli manna verði þess valdandi að það skapist tortryggni um þessa mikilvægu samninga. Það er afskaplega mikilvægt að þessi samstaða sem náðist þrátt fyrir það að menn geri sér grein fyrir því að heilar atvinnugreinar geti átt í erfiðleikum og þurfi að búa við aukna samkeppni, það sé mikilvægt að þessari sátt sé ekki raskað vegna deilna um einstök og smærri atriði. Ég vil sem inngang að mínu máli láta þessa getið þannig að mitt viðhorf í þessum efnum og míns flokks sé algerlega ljóst.
    Það vill vera þannig að þegar menn deila og deilurnar dragast á langinn að menn gleyma hvaðan sú deila er sprottin, hvaðan hún er runnin og hvert var upphaf hennar og menn týna sér í smáatriðum sem síðar hafa komið til og fara svo að fjalla um upprunann með allt öðrum hætti en hann var eða efni stóðu til. Lögfræðilega vandamálið nú sem við höfum verið að fást við að undanförnu er ekki lögfræðilegt klúður núv. ríkisstjórnar eins og menn gætu haldið af umræðunni, og ég skal svo sannarlega ekki afsaka talsmenn ríkisstjórnarinnar í því að hafa komið umræðunni í þann farveginn. Menn gætu haldið að það væru lögfræðileg vandamál við lagasetningu sem rekja mætti til núverandi ríkisstjórnar sem væri upphafið að öllu þessu vandamáli, en það er ekki.
    Það féll nefnilega dómur um það að lög sem voru sett fyrir níu árum síðan um landbúnaðarmál voru ekki nægjanlega vel úr garði gerð að mati Hæstaréttar. Það voru ekki lög sem núv. ríkisstjórn hafði sett, heldur lög sem voru sett fyrir níu árum síðan og menn höfðu í góðri trú talið að héldu og fjölmargir lögvísir menn höfðu talið, bæði frjálst starfandi lögfræðingar og dómendur, að héldu. Meiri hluti Hæstaréttar, þar með hæstaréttarniðurstaðan komst að því máli --- og Hæstiréttur á að vera endir allra deilna þó hann hafi ekki orðið það í þessu falli --- að þessi lög héldu ekki og þar með var óvíst um hvort lög, sem sett voru á þessum lagagrundvelli fyrir ekki allt of mörgum mánuðum síðan í bærilegri sátt hér í þinginu, héldu. Þetta er undanfari málsins og orsök þessara miklu deilna sem að mínu viti eru miklu minni að efni til heldur en umfang þeirra hefur orðið. Það var kynnt eftir að þessi niðurstaða Hæstaréttar hafði orðið og fyrir því var ríkur vilji, ég hygg allra flokka hér í þinginu, að láta ekki þessa dómniðurstöðu Hæstaréttar, sem var á aðra lund en menn höfðu í góðri trú horft á, breyta um vilja þingsins, annaðhvort alls þingsins eða a.m.k. mjög mikils meiri hluta þingsins. Og það var kynnt að lagt yrði fram frv. sem styrkti lögfræðilega stöðu þess þingvilja sem þá lá fyrir en Hæstiréttur úrskurðaði að menn hefðu ekki búið svo vel í pottinn sem þeir höfðu talið um það efni. Þannig bar málið að þinginu í þetta sinn.
    Það er síðan auðvitað svo að það er til fleiri en ein aðferð til að tryggja lagastöðu þess þingvilja sem menn höfðu viljað tryggja í desember sl. Það var farin tiltekin leið til þess en það var jafnframt áskilið og hlaut auðvitað að vera að vilja allra sem að málinu komu að ef það kæmi fram við meðferð málsins að mati færustu lögfræðinga að frv. eins og það var þá í pott búið tryggði ekki þessa lögfræðilegu stöðu svo fullnægjandi gæti talist, þá yrði úr því bætt. Þetta var stjórnmálalegi og reyndar lögfræðilegi veruleikinn sem menn höfðu við að glíma.
    Það var mat þeirra lögfræðinga sem komu fyrir hv. landbn. að frv., eins og það var lagt fram, tryggði ekki með fullnægjandi hætti það sem fyrir ríkisstjórninni vakti og það sem fyrir þingmeirihlutanum vakti. Og þá var verkefnið það að leitast við að tryggja þetta þannig að einhlítt væri og enn þyrftu ekki að hefjast upp deilur úti í þjóðfélaginu --- við getum aldrei komið í veg fyrir að deilur hefjist hér --- um þessi efni. Ég tel að þær brtt. sem nú liggja fyrir tryggi þetta og að Alþingi geti þess vegna verið sátt við verk sín, sátt við það sem var farið af stað með eftir að hæstaréttardómurinn lá fyrir, að sú vinna sem þar var haldið af stað með hafi verið kláruð með réttum hætti og Alþingi geti í góðri trú afgreitt þetta frv. og þar með talið að réttaróvissa sé ekki í landinu.
    Menn hafa gert mikið úr því að um þessar brtt., ekki um frv. sjálft heldur um brtt., hafi staðið stórstyrjöld á milli stjórnarflokkanna. Það er fráleitt að halda því fram að staðið hafi stórstyrjöld um þau atriði á milli stjórnarflokkanna. Ég dreg ekki úr því að það hafi hins vegar gengið meira á í þeim efnum heldur en ástæða hefði verið til. Ég tel að milli stjórnarflokkanna hafi eftir brtt. og þá vinnu sem landbn. setti í málið aðeins verið rætt um tvö efnisatriði. Aðeins tvö efnisatriði, ekki fleiri. Það var um atriði sem annars vegar snerti tilfærslu eða sérstaka viðmiðunartengingu við GATT í brtt. sem þá var númeruð 2.4 í tillögunum og hins vegar varðandi það hvort nefna ætti sérstaklega þann þátt og hafa með í textanum hugtakið ,,landbúnaðarvörur sem jafnframt eru framleiddar hér á landi``. Þetta atriði var tilfært í desemberlögunum, að vísu með nokkuð öðrum hætti en þó tilfært þar og því þótti mér eðlilegt að það væri þarna inni.
    Í umræðunum um GATT-samninginn hins vegar kom í ljós eins og mennirnir höfðu nefnt að ekki var fullskapað með hvaða hætti yrði tekið á öllum þáttum sem að þeim samningum lúta eða þeirri röð samningsþátta GATT sem að þeim samningum lúta enn þá og menn höfðu jafnvel uppi skoðanir á því hvað væri fært og hvað væri heimilt og hvað væri bannað eftir GATT-umræðuna. Haft var á orði að það væri óheimilt að nota verðjöfnunargjöld til að mynda eftir GATT-samninginn nýja. Þær upplýsingar hafa þó fengist að bæði Svíar og Norðmenn hafa ekki þennan skilning og ætla að nota verðjöfnunargjöld eftir sem áður og telja sig hafa fullar heimildir fyrir því. Að því leyti til væri okkur sú leið fær. Þó er eitt vandamál þar á fyrir okkur að gera það. Það er það vandamál að hér landi hafa dómstólar túlkað með nokkuð öðrum hætti skattlagningarheimildir og verðjöfnunarheimildir heldur en gert hefur verið í hinum norðlægu, nálægu löndum og því þarf að haga með nokkuð öðrum hætti þessum þáttum en þeir geta gert, frændur okkar á Norðurlöndum.
    Ríkisstjórnin hafði ákveðið fyrir sitt leyti að allir þessir þættir sem snúa að GATT og fyrirkomulagið sem þar yrði á eftir að þeir samningar hefðu fengið viðurkenningu, annars vegar alþjóðlega viðurkenningu sem er gerð með tilteknum hætti, þ.e. þannig að þjóðir gerast aðilar að GATT þegar þær kjósa og hins vegar með þeim hætti að þá á sér stað annars vegar innlend ákvörðun um að gerast aðilar að GATT og hins vegar að laga útfærslu í tilefni af þeirri ákvörðun.
    Auðvitað er það svo að öll lög sem sett eru og snerta okkar viðskiptasambönd og viðskiptasamninga halda gildi sínu, um það er enginn vafi, þrátt fyrir GATT nema því aðeins að menn breyti þeim lögum hér í þinginu. Ég hygg að það haldi enginn því fram að lög breytist við það eitt að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningum. Hins vegar getur hvílt á okkur sú skylda til að efna samninginn að laga okkar lagaramma og lagasetningu að slíkum alþjóðlegum samningum, en það þurfa menn að gera sjálfir og hafa fullt frelsi til en geta hins vegar lent í því, geri þeir það ekki, að sæta þeim viðurlögum sem alþjóðasamningar kunna að gefa til kynna hverju sinni.
    Ég tel að þessi tvö atriði sem ég nefndi sem út af stóðu hafi ekki verið veigamikil og ekki tilefni veigamikilla deilna. Hins vegar fannst mér rétt og ástæðulaust annað en að það væri svo að ekki væri bein tilvísun í GATT-samninga þar sem ríkisstjórnin hafði ákveðið sjálf að sérstök nefnd, ráðherranefnd, ráðuneytanefnd skyldi um það mál fjalla. En síðan eru aftur tilfærðar eins og nú er gert með tilteknum hætti þær reiknireglur sem menn munu styðjast við og þegar menn velta fyrir sér hvort þessi breyting á því að GATT var tilfært sérstaklega og ekki gert með orðanna hljóðan nú, breyti forræði landbúnaðarmála, þá er það auðvitað alveg fráleitt því að það þarf sérstaka ákvörðun um það og sérstakan vilja Alþingis um það að breyta því fyrirkomulagi sem nú er á. Það liggur ekkert fyrir um það að okkar fyrirkomulag sem nú er á sé óheimilt í þeim efnum. Svíar og Norðmenn telja þvert á móti að það fyrirkomulag sé ekki óheimilt. En þetta munu menn skoða og þetta hlýtur Alþingi að skoða sérstaklega um leið og Alþingi skoðar aðildina að GATT. Og þó að GATT-viðbótin sé ekki sú bylting sem stundum hefur verið látið í veðri vaka, þá tel ég afskaplega mikilvægt að sá friður og sú eining sem náðist um GATT-tilboðið raskist ekki og menn geti haldið því sem frekast er kostur.
    Hv. þm. Páll Pétursson ræddi það sérstaklega hér áðan að Alþfl. hefði svínbeygt Sjálfstfl. í þessu máli og það hefði hlaðið upp sárindum í þeim efnum. Ég tel það ekki vera og ég tel reyndar ekkert tilefni til þess að annar hvor flokkurinn hafi beygt hinn í þessum efnum. Ég hef viljað vekja athygli á því út á við að það hefur verið ótrúleg samstaða um það á þessu þingi að laga framleiðslu íslensks landbúnaðar að breyttum háttum og gera honum skylt að taka á og búa sig undir aukna samkeppni. Ég tel að íslenskur landbúnaður hafi fyrir sitt leyti sýnt í verki, reyndar bæði orði og verki, að hann biðst ekki undan því. Á hinn bóginn biður hann eðlilega um það að fá ekki lakari aðlögunartíma að því verki heldur en aðrir og auðvitað hljóta íslensk yfirvöld, þingkjörin ríkisstjórn og Alþingi allt reyndar, að tryggja það að þessi breyting í átt til bætts hags fyrir neytendur sé gerð í góðu samkomulagi við framleiðendur sem þeir hafa svo sannarlega ljéð máls á.