Framleiðsla og sala á búvörum

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 17:19:45 (5082)


[17:19]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. að það er nauðsynlegt að lög og reglur um túlkun alþjóðasamninga séu skýr. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort það stuðli að því að lögin séu skýr að við brtt. ríkisstjórnarmeirihlutans í landbn. komi fram tvö nefndarálit sem ganga sitt í hvora áttina. Og ég spyr hæstv. forsrh.: Ef þetta er afgreitt á þennan hátt, eru menn þá að sinna þinglegum skyldum sínum um að setja lög sem eru skýr? Getur það staðist eið þann sem við þingmenn sverjum að setja lög sem vísvitandi er gengið þannig frá að þau eru óskýr og dómstólar fá enga leiðsögn í nefndarálitum um hvernig á að túlka þau því að að mínu mati upphefja þessi nefndarálit hvort annað.
    Í öðru lagi vil ég nefna við hæstv. forsrh. það sem hann í fortíðarvandaviðleitni sinni vitnaði í lagasetninguna 1985, þá vil ég benda á að þegar hæstv. ríkisstjórn lagði fram frv. til breytinga á búvörulögum á síðasta ári, þá sagði þar í greinargerð ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Eftir gildistöku laga nr. 88 17. nóvember 1992, um innflutning, er nauðsynlegt að skilgreina upp á nýtt forræði fyrir innflutningi búvara.``
    Þannig lá það fyrir fyrir hálfu öðru ári síðan að þetta þurfti að skilgreina upp á nýtt en ríkisstjórninni tókst ekki að koma þeirri breytingu fram. Staðreyndin er nefnilega sú að fram að þeim tíma

byggði innflutningsbannið ekki á búvörulögunum heldur á innflutningslögunum og að viðskrh. þyrfti að veita leyfi hverju sinni.